Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrra andsvar. Mjög gott. Hvenær viljum við Píratar lýðræði og hvenær ekki? Ég held við spyrjum okkur öll þeirrar spurningar á hverjum degi. Það skiptir náttúrlega máli líka um hvað er verið að kjósa og hvernig það er sett upp og þegar kosið er um stóran hlut eins og tillögur stjórnlagaráðs þá er fullt af hlutum í því. Kannski ertu ekki sammála öllum hlutunum en þú ert sammála heildinni þar. Menn geta alveg verið ósáttir við einhvern hluta þótt þeir séu sáttir við heildina og það er náttúrlega bara hluti af því að vera í stjórnmálum og pólitík. En varðandi það hvort alþingiskosningarnar hafi verið mælikvarði á það hvort við viljum vera í ESB eða ekki þá langar mig bara að nefna að einn af okkar fremstu vísindamönnum í stjórnmálafræði, Ólafur Þ. Harðarson, hefur rætt það hvernig kosningarnar 2021 voru mjög óvenjulegar á margan máta vegna þess að við vorum að koma úr mjög skrýtnu ástandi, þ.e. úr heimsfaraldrinum. Margt af því sem hefði kannski annars breyst í fylgi flokka gerði það jafnvel ekki vegna þess að við höfðum verið í þessu ástandi og fólk var að biðja um að halda einhverjum stöðugleika eða gera ekki of miklar breytingar á lífi þess. Ég get alla vega ekki lesið það þannig að ég hafi verið að kjósa um ESB eða ekki ESB út frá því hvort ég hafi viljað kjósa Viðreisn eða ekki Viðreisn.