Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:50]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér og tek þátt í umræðunni af því að mér er það bæði ljúft og skylt. Mér finnst umræðan mikilvæg. Mér hefur þótt hún ágæt og jafnvel góð á köflum og tek undir orð hv. þingmanns sem talaði hér áðan um að það hefði ekkert sérstaklega margt nýtt komið fram í dag, hvorki í viðhorfum né upplýsingum, en við erum þó að ræða okkur í gegnum þetta. Ég ætla að fá að taka dálítið annan vinkil sem skiptir mig miklu máli og það er umræðan um stríð og frið. Hún hefur vissulega borið hér á góma og hér hafa fylkingar ásakað hver aðra um að nota stríðið sínum málflutningi til stuðnings. Ég kem úr friðarhreyfingu. Það sem mér finnst mikilvægt að komi fram núna er að hér er mikið talað um friðarbandalagið sem Evrópusambandið er. Við þekkjum öll þessa sögu. Við þekkjum söguna af stofnun sambandsins. Við þekkjum það að hugmyndafræðin, markmiðin og margt er gott, hugsjónin er falleg og ég held að enginn hér mótmæli því. Við getum þó ekki litið fram hjá því að í dag er Evrópusambandið að vígbúast. Það er ekkert öðruvísi en að friðarbandalagið er að vígbúast. Það hefur verið haft eftir Josep Borell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, að sambandið hafi hreinlega sofið á verðinum, ekki hafi nógu miklu verið varið til varnarmála, talað er um allt að 9 milljarða evra og að stór hluti þeirrar upphæðar fari í vopn. Þetta eru einfaldlega staðreyndir og upplýsingar sem ég get aldrei stutt. Við erum smáríki, við erum lítil þjóð í stóru samhengi. Við erum herlaus þjóð og í stefnu Vinstri grænna tölum við fyrir því. Við eigum að tala fyrir friði, við eigum að standa í því sem við getum gert sem er að styðja við fólk á flótta, styðja við efnahagslega. Við eigum ekki að vera í hernaðarbraski, við eigum ekki að leita eftir meiri aðkomu þjóðarinnar að hernaðarbrölti heimsins og einungis það fær mig á þá skoðun að á stríðstímum er ekki rétti tíminn til að ræða aðild að Evrópusambandinu.

Annað sem mig langar að tala um er það sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson spurði um: Hvar eru ríkin sem voru í EFTA? Þá segi ég: Hvar er Bretland? Bretland var þriðja stærsta ríkið í Evrópusambandinu, þriðja fjölmennasta ríkið. Þetta var eitt af kjölfesturíkjunum í Evrópusambandinu og þó að þeir kjósi fara út þá hefur það alls konar afleiðingar, fyrst og fremst fyrir Breta sjálfa. En við skulum ekki líta fram hjá því að það hefur líka gríðarlegar afleiðingar fyrir Evrópusambandið. Þar hefur riðlast ákveðið valdajafnvægi af því að við vitum að öll ríki hafa ekki sama vald inni í Evrópusambandinu. Núna hefur þetta alveg komið til umræðu. Ég veit ekki hvernig það stendur í dag eftir innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu en eftir Brexit var það bara mjög gild skoðun um Frakka og fleiri ríki sem við teljum til þessara kjarnaríkja. Sú umræða átti sér stað. Það eru ekki einu sinni mörg ár síðan sú umræða var tekin alvarlega um hvort væri hægt að fara úr Evrópusambandinu yfir höfuð. Það er nú allt sjálfstæðið sem ríki hafa, það var ekki fyrr en fyrir fáum árum að úrskurðað var um að ríki geti auðvitað sagt sig úr bandalögum alveg eins og þau ganga í þau. Annað væri fullkomlega óeðlilegt.

Sjálf lærði ég að hluta á Ítalíu. Ég er lögfræðingur og tók þar mikinn Evrópurétt, evrópskan samningarétt og alls konar skemmtilega kúrsa. Það sem situr eftir, og einnig síðar þegar ég heimsótti Brussel og allar helstu stofnanir í stjórnmálafræðikúrsi, er báknið sem stundum er talað um á Íslandi. Þetta er gríðarlegt bákn og eitt uppáhaldsorðið mitt í þessari umræðu er hin meinta skrifræðisþreyta sem Evrópusambandsþjóðirnar eru dálítið illa haldnar af. Við þekkjum þessa umræðu. Þetta er svifaseint, hvort sem við horfum til dómsmála eða innleiðinga. Hugmyndin og hugmyndafræðin er góð eins og ég hóf mitt mál á að segja. Það er fallegt markmið að vera með friðarbandalag þar sem er einsleitur markaður þar sem allir eiga jöfn tækifæri, þar sem er frelsi fyrir fólk og vörur að flæða á milli aðildarríkjanna. Þetta er allt mjög frábært en við höfum bara séð svo ótrúlega mörg dæmi um eitthvað sem hikstar í kerfinu. Ég held að við sem erum þetta fámenn þjóð með svo mikla sérstöðu í auðlindamálum höfum við spilað vel úr því sem við eigum, með íslensku krónunni sem er hér mjög töluð niður og kannski ekki að ástæðulausu, ég tek ekki afstöðu til þess. Kannski væri bara betra að binda hana við kaffi og gull eða eitthvað, við skulum ekki einblína á það sé ein lausn í því máli.

Ég held að við verðum að horfast í augu við að okkar hagsmunum er ekki betur borgið þarna inni. Það er mín bjargfasta trú. Ég er ekki hrædd við að taka samtalið og ég er ekki hrædd við að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er ekki á móti þjóðaratkvæðagreiðslum en mér finnst þetta ekki rétti tíminn fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem er að vígbúast hratt, þar sem hriktir í grunnstoðunum eftir að Bretar fóru út. Það er ekki forgangsmál í íslenskum stjórnmálum að eyða tíma og peningum í þetta af því að við eigum að vera að einbeita okkur að öðru. Það er mín skoðun og þess vegna er ég ósammála því að þetta sé forgangsmál í íslensku samfélagi í dag. Við erum með önnur gríðarlega stór mál. Ég minni á margt í efnahagsmálunum, eitthvað varðandi bankasöluna og eitthvað varðandi sjávarútveg. Það er ýmislegt sem við höfum verið að takast á um sem ég held að þjóðinni þyki margfalt stærri mál og ættu hugsanlega heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að meta það hér og nú hvaða mál það eru en ég get alla vega ekki séð að aðildarviðræður við Evrópusambandið séu þar, sérstaklega þar sem þau rök eru notuð að við vitum ekkert hverju við getum samið okkur frá. Við vitum alla vega að það eru bara mjög margar reglur innan Evrópusambandsins sem við getum ekki samið okkur frá.

Að lokum vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að 2. gr. stjórnarskrárinnar sé góð. Hún er mikilvæg og ég held að við höfum verið að margbrjóta á henni. Við þurfum að skoða það í okkar málum í gegnum EFTA. Við erum stanslaust að framselja vald. Lausnin er ekki að fara alla leið í Evrópusambandið. Lausnin er frekar að taka ábyrgð og vanda okkur.