Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:33]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir andsvarið. Það sem ég hef kannski verið að reyna að benda á er það að ef í landinu situr ríkisstjórn sem fær einhvers konar forskrift frá þjóðinni og hún er ekki sammála því sem kemur fram í forskriftinni, þá þarf sú ríkisstjórn annaðhvort að víkja eða þá einfaldlega segja: Þjóðin er búin að færa okkur þetta verkefni. Nú einhendum við okkur í það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er ekki einfalt. En þetta er samt sem áður lýðræðislegt. Hv. þingmaður vísar hér í þingmeirihlutann og alveg rétt, það blasir alveg við að meiri hluti þingmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið. En við erum ekki að leggja það til að Alþingi Íslendinga samþykki það að ganga í Evrópusambandið. Við erum einfaldlega að leggja til að þjóðin verði spurð. Þar liggur kannski munurinn á því sem ég er að segja og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir er að segja. Ég er að segja: Leyfum þjóðinni að ráða. Það felst í tillögunni sem við öll erum að leggja fram. Þeir sem tala gegn því segja: Nei, þjóðin á ekki að fá að ráða. Mér finnst að þetta eigi ekki að vera á dagskrá. Mér finnst þetta ekki vera mikilvægt mál og það skiptir mig engu máli hvort þjóðinni finnist þetta mikilvægt mál eða hvort það eigi að vera á dagskrá.

Ég er einfaldlega að vísa í það að þetta er búið að vera svo mikið þrætuepli í samfélaginu svo lengi að það er engin leið önnur til að höggva á hnútinn en að leyfa þjóðinni einfaldlega að ráða för. Ég árétta að við erum ekki að leggja það til að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er vissulega mín skoðun, en ég vil að það sé þessi millileikur, að þjóðin fái að segja til um það hvort það eigi að halda þessum aðildarviðræðum áfram. Það er kannski það sem ég er að reyna að draga fram. Svo má líka benda á það og undirstrika enn frekar að kannanir sýna að það er mikill vöxtur, (Forseti hringir.) sá hópur er að stækka mjög mikið sem vill ganga í Evrópusambandið. Það er gerbreytt. Er það einhvers staðar sem skiptir höfuðmáli? (Forseti hringir.) Nei, en það eru þó a.m.k. vísbending um það að þjóðin sé að kalla eftir einhvers konar möguleika á að fá að segja eitthvað um málið.