Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:05]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það er rétt hjá honum. Við erum að ganga inn í lok ársins 2022. Við gefum hæstv. ráðherra heilt ár. Við vorum að vona, fyrst það er búið að taka hann fimm ár, að ef hann fengi eitt ár núna miðað við hvað árferðið er erfitt þá yrði hugsanlega eitthvað úr þessu. En það er rétt hjá hv. þingmanni, upphæðin mun vera orðin önnur. Varðandi breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þá höfum við að sjálfsögðu komið með ýmsar breytingartillögur. En eins og hv. þingmaður veit þá er það náttúrlega bara af okkar góða vilja, eins og við höfum öll í stjórnarandstöðunni, sem við höfum barist við að koma fram með sí og æ, en þær hafa ekki fengið sérstaklega mikið brautargengi. En hvað varðar það að við höfum efni á því að taka á okkur hærri greiðslur, frekar en fólkið sem við erum að berjast fyrir, þá langar mig að ítreka þetta með persónuafsláttinn. Ég lifði mig svo inn í það þegar ég var að tuða þarna áðan að ég hreinlega las ekki helminginn af því sem ég ætla að segja ykkur, tími minn var bara búinn. En þessi persónuafsláttur er í rauninni fallandi frá því að þú ert kominn upp undir meðaltekjur. Þannig að þegar þú ert kominn í efsta skattþrepið, sem er hátt í milljón á mánuði, þá færð þú bara engan persónuafslátt, þú færð hann ekki neitt. Það kostar ríkissjóð ekki mikla peninga með tilliti til þess að alltaf þegar ríkissjóður setur eitthvað frá sér þá hirðir hann megnið af því aftur til baka, eins og við vitum öll, í formi óbeinna skatta og virðisaukaskatts og annað slíkt. En jú, ef ég mætti ráða þá myndi ég taka bara lag Stuðmanna akkúrat og syngja hástöfum hér: Strax í dag.