Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:16]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á því að ég var kannski að fara svolítið vítt yfir sviðið eða víðar heldur en tvær mínútur leyfa í andsvari. En grunnurinn að því sem ég var að hugsa er hvort ríkisstjórnin sé núna að einhverju leyti að bæta upp fyrir — það er í rauninni að einhverju leyti verið að stöðva þá þróun að skattbyrði aukist sjálfkrafa á tekjulægra fólk og millitekjufólk, og þá er ég tala um beina skattheimtu. Mér sýnist að einhverju leyti að til að mæta þeirri þróun að það gerist ekki lengur sjálfkrafa sé gripið til þess ráðs að láta í raun tilfærslukerfin rýrna næstu ár og svo hins vegar eigi jafnvel að auka óbeina skattheimtu, bæði með neyslugjöldum og svo líka með alls konar hugmyndum um t.d. veggjöld. Allt í einu koma fram hugmyndir um að það eigi að skattleggja sérstaklega fólk ef það keyrir gegnum göng en ekki t.d. yfir brú. Þetta þykir eitthvað voða sniðugt, að fólk skuli skattlagt sérstaklega ef það býr á þannig stöðum að það borgar sig að fara í gegnum göng en ekki til að mynda ef það þarf að fara um mislæg gatnamót eða um brýr. Þetta samhengi sem ég var að reyna að draga upp hérna er hvort þetta sem er að gerast, þessar nýju gjalda- og skattahugmyndir, séu að einhverju leyti viðbragð við því sem átti sér stað m.a. samhliða lífskjarasamningunum og með þessari breytingu á viðmiðunarmörkum tekjuskattskerfisins og persónuafsláttar sem tóku gildi í fyrra. Það er það sem ég er að hugsa.

Annars myndi ég vilja heyra aðeins frá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvers vegna hún telur þetta æskilegustu leiðina, að láta persónuafsláttinn fjara út frekar en að leggja á efra skattþrepið, sem sagt hærra skattþrep sem væri þá meira stighækkandi, (Forseti hringir.) hærri prósentutölu.