Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:28]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og ég hef lengi séð að hjarta hv. þingmanns slær mikið í takt við okkar þegar kemur að því að að vilja taka utan um þá sem minna mega sín í samfélaginu. Að vísu ætti ég ekki að vera að spyrja hv. þingmann út í tillögu Pírata hvað varðar þessa skilyrðislausu grunnframfærslu en langar samt að vita hvort þetta séu ekki hin svokölluðu margumtöluðu borgaralaun. Ef ég skil það rétt, og þess vegna er ég kannski ekki sammála þessari skilyrðislausu grunnframfærslu, þá er hún er svipuð og lægsta skattþrepið hjá ríkisstjórninni og á bara að ganga í gegnum allt kerfið. Þeir sem eru með 10 milljónir á mánuði eigi líka að fá skilyrðislausa grunnframfærslu, þessi borgaralaun. Ég átta mig ekki hvernig 370.000 manna samfélag ætti að geta staðið undir slíku og ef þessi framfærsla ætti að vera til þess að framfleyta þeim sem væru verst settir og með lægstu tekjurnar, hvað erum við þá að tala um háa greiðslu á mánuði? Er komin einhver kostnaðaráætlun á þetta? Þetta langar mig að vita áður en ég get slegið það út af borðinu, því að ég þekki þetta hreinlega ekki nógu vel og langar mikið að vita hvort ég misskilji þetta.