Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:45]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mikil gróska í verkalýðshreyfingunni 2018 og í byrjun 2019 og þá í upphafi lagði verkalýðshreyfingin mjög mikla áherslu á þetta, sérstaklega Efling t.d., að tryggja skattleysi lágmarkstekna. En svo var þeirri kröfu ekki fylgt sérstaklega eftir. Í rauninni var svona hálfpartinn fallið frá henni og settar fram ákveðnar röksemdir gegn þessum hugmyndum í skýrslu sem Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, skrifuðu fyrir Eflingu og er einmitt vitnað til í þessu þingmáli í greinargerð. Þar er í rauninni bent á það að ef það ætti að bæta upp kostnað ríkissjóðs af algeru skattleysi lágmarkstekna með því að láta persónuafsláttinn byrja strax að fjara út — þá var miðað við 300.000 kr. en núna við 400.000 kr. — myndi það fela í sér gríðarlega mikla jaðarskattbyrði á millitekjufólk, fólk sem er með rétt yfir 400.000 kr. í laun, fólk með 500.000 kr. í laun. Þetta er ekkert ofboðslegt hátekjufólk. Þetta er fólk er með helmingi lægri laun en við hérna, meira en það reyndar. Það varð eiginlega niðurstaða þeirra að með þessu myndu jaðarskattar hækka um allt að 20 prósentustig og hjá ellilífeyrisþegum t.d. væri þannig verið að auka mjög á skerðingu vegna lífeyris og bóta. Þeir orðuðu þetta þannig að þessi leið gengi illa fyrir lífeyrisþega sem búa þegar við mjög hátt stig tekjutenginga innan almannatryggingakerfisins. Þannig að ég vildi bara fá að varpa fram þeirri spurningu til hv. þingmanns (Forseti hringir.) hvort þetta sé ekki eitthvað sem þurfi að skoða betur, hvort það sé of há jaðarskattbyrði þarna á millitekjufólkið.