Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:54]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Fátækt hefur ýmis áhrif á einstakling, hvort sem hann er barn, fullorðinn eða aldraður, hver sem það er. Fátækt hefur mjög mikil áhrif, ekki bara andlega heldur líkamlega og mikill kostnaður fylgir því að vera fátækur. Það er bara rosalega dýrt vegna þess að ef þú ert fátækur ert þú líklegri til að verða veikur. Þú ert líklegri til að fá alls konar sjúkdóma, allt frá því að fá sykursýki, krabbamein, geðsjúkdóma, tannskemmdir, nefndu það. Og það að vera veikur í heilbrigðiskerfinu okkar er dýrt, það kostar mikla peninga. Það kostar mikla peninga að fara til tannlæknis. Það kostar mikla peninga að vera með geðsjúkdóma. Það er dýrt vegna þess að við höfum ekki búið nægilega vel um fólkið okkar þannig að það geti verið veikt, geti verið með geðsjúkdóma eða hvað sem það er. Allt sem gerir það að verkum að fólk búi ekki við fátækt er ég til í að skoða og mér finnst mjög áhugavert að finna mismunandi leiðir til að mæta þessu fólki þannig að við séum ekki að lenda líka í því að sé að verða mikið bil á milli fólks í þessu samfélagi og að fátæka fólkið sé að verða undir og beri rosa mikinn kostnað af því að vera fátækt.

Fátækt eykur líkur á mikilli streitu. Streita er uppspretta alls konar vanda, t.d. innan heimilislífsins. Ef það er mikil streita inni á heimili þá getur það orsakað ofbeldi inni á heimili. Streita er mjög oft tengd fjárhagsvanda, þótt auðvitað séu þar alls konar aðrir hlutir, en það að hafa áhyggjur af peningum getur orsakað mjög mikla og viðvarandi streitu. Það getur gert heimilin hættulegri fyrir börn í fátækt. Mér finnst bara mjög gott að Flokkur fólksins sé að berjast fyrir því, ásamt öðrum flokkum hér á þingi, að finna leiðir til þess að sporna við því að það séu börn og einstaklingar í þessu samfélagi sem lifa við fátæktarmörk eða í mikilli fátækt. Þessi umræða er mjög mikilvæg og að við reynum að finna lausnir á því hvernig best er að mæta þessum hóp. Það mun alltaf verða samfélaginu til góða. Það minnkar t.d. kostnað í heilbrigðiskerfinu ef fólk lifir ekki við fátækt þannig að það þarf að taka langtímaáhrifin inn í þetta. Hvað græðum við á því að passa upp á það að börnin séu ekki fátæk og líka fólkið okkar sem er veikt fyrir?

Mér finnst mjög mikilvægt og gott að verið sé að taka þessi skref og spá í því hvað séu bestu leiðirnar til þess að vernda fólk í samfélaginu frá því að vera í fátækt vegna þess hvað áhrifin geta verið alvarleg og langvarandi og valdið miklum kostnaði fyrir aðra í þjóðfélaginu. Það er alltaf til bóta ef við hugsum það þannig. Við viljum passa upp á fólkið okkar og passa það að börn og fjölskyldur og annað fólk búi ekki við fátækt á Íslandi.