Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:59]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð. Ég er kominn hingað til þess að styðja þessa hugmyndafræði Flokks fólksins, 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Eins og ég sé þetta þá vil ég vitna í orð Ólafs Jóhannessonar, sem var forsætisráðherra á árum áður, sem sagði: Vilji er allt sem þarf. Svo framarlega sem við erum sammála um það að 400.000 kr. séu lágmark til að lifa af fyrir einstaklinga, ellilífeyrisþega, öryrkja, einstæða foreldra, þá finnum við út úr þessu. Það kostar allt. Það verður bara að hafa það. Við verðum bara að finna út úr því. Við viljum vera stolt af því sem þjóð að geta sagt að það lifi allir mannsæmandi lífi á Íslandi. Við hér á Alþingi ætlum að vera völd að því að svo verði því að við viljum ekki vita til þess að hluti þjóðarinnar lepji dauðann úr skel, það er út í hött, því að eins og sagt er þá er nóg til. Þess vegna styð ég þessa hugmynd og ég vona að við finnum út úr því. Áfram veginn.