Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[21:06]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að hafa mörg fleiri orð, hér hefur í rauninni allt verið sagt og það er góður hugur gagnvart þingsályktunartillögu okkar í Flokki fólksins um 400.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Það er í raun aldrei hægt að tíunda nógu mikið hversu ömurlegt það er að horfa upp á börnin hér sem fæðast með sína snilligáfu, mörg hver, sem fá aldrei í uppvextinum tækifæri á því að nýta hana; fá aldrei að fara í tónlistarnám af því að þau hafa ekki efni á því, fá aldrei að stunda íþróttir af því að þau hafa ekki efni á því, fá aldrei að fara í tannréttingar eða dýrar aðgerðir í munni vegna þess að það er ekki niðurgreitt. Þau eru sett hjá garði, virðulegi forseti. Við erum að tala um framtíðina. Við erum að tala um þúsundir barna sem taka við af okkur hér og ég velti því raunverulega fyrir mér: Ef það er ekki hér á hinu háa Alþingi sem á að sýna þann sóma að gefa okkur öllum kost á því að taka þátt í þessu samfélagi án þess að vera skilin út undan, þá er það hvergi. Það er ekki náttúrulögmál að eiga vonda ríkisstjórn sem hugsar ekki um neitt annað en auðmagn og sérhagsmuni. Það er ekkert lögmál, það er ekkert náttúrulögmál, það er mannanna verk. Að sjálfsögðu er það í höndum kjósenda hverju sinni að koma í veg fyrir að við sitjum uppi með slíka ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Það er sárara en tárum taki að hafa verið hér núna í fimm ár og sjá það alltaf betur og betur hvað bágindin eru mikil úti í samfélaginu og hvað vilji löggjafans, þeirra sem ráða hér lögum og lofum á Alþingi, er lítill, hvað vilji þeirra er lítill til þess að hjálpa þeim sem eiga bágt.