Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:08]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á kosningalögunum frá 2021. Þetta felur fyrst og fremst í sér að ná fram jöfnun atkvæðavægis innan þess ramma m.a. sem stjórnarskráin setur okkur.

Markmið frumvarpsins er annars vegar að gera vægi atkvæða milli kjördæma eins jafnt og stjórnarskrá heimilar og hins vegar að tryggja eins og unnt er að sem fyllst samræmi sé með þingmannatölu og atkvæðafylgi hvers þingflokks eins og segir í stjórnarskránni, en þar segir m.a. að jöfnunarsætum skuli „ráðstafað í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.“

Jafnræði fólks til að hafa pólitísk áhrif með atkvæðisrétti sínum er meðal grundvallaratriða lýðræðisins. Takmarkanir á atkvæðisréttinum skerða þetta jafnræði. Í mínum huga er það alveg skýrt. Þetta er eitt af grundvallarmálum Viðreisnar alveg frá stofnun flokksins, að jafna vægi atkvæða þannig að einn maður, eitt atkvæði gildi. Þetta frumvarp fer ekki alveg þangað, nær því ekki, því að á meðan stjórnarskráin er með skilyrði um að kjördæmi séu að hámarki sjö, þau eru í dag sex, þá setur það skorður bara út frá stærðfræðilegum viðmiðunum og ég kem að því á eftir. En það er algjört kjarnamál Viðreisnar að reyna að ná jafnara vægi atkvæða fram.

Þessar takmarkanir á atkvæðisréttinum eiga sér ýmsar birtingarmyndir, allt frá því þegar vald er tekið frá almenningi og til þess að tilteknum hópum er síðan fengið aukið lýðræðislegt vald umfram aðra. Merki hins síðarnefnda má m.a. finna hér á landi í ólíku vægi atkvæða milli kjördæma, ólíku vægi atkvæða eftir búsetu fólks. Það vekur auðvitað upp spurningar við útfærslu á kosningakerfinu og hvernig beri að skilja þá grunnforsendu í samfélagi okkar að almennir borgarar hafi jafnan rétt til pólitískra áhrifa.

Kjördæmakerfið á Íslandi eins og það er nú leyfir mest tvöfaldan mun á vægi atkvæða eftir búsetu kjósenda og í þrígang hefur þurft að fækka þingmannatölu Norðvesturkjördæmis til að misvægið haldist innan þessara marka. Nefnd Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, þ.e. Feneyjanefndin svokallaða, hefur gefið út reglur um góða starfshætti í kosningamálum. Í þeim reglum kemur fram að tryggja skuli sem jafnast vægi atkvæða; að misvægi atkvæða fari almennt ekki yfir 10% og alls ekki yfir 15% nema við sérstakar aðstæður. Á Íslandi er munur á atkvæðavægi kjósenda hins vegar yfirleitt nær 100% — nær 100%. Ástæðurnar fyrir þessum mikla mun eru tvær. Annars vegar að í stjórnarskránni er kveðið á um að kjósendur að baki hverju þingsæti í einu kjördæmi megi ekki vera helmingi færri en að baki þingsæti í öðru kjördæmi. Hins vegar er í kosningalögunum kveðið á um að breytingar á fjölda kjördæmissæta megi aldrei vera meiri en til að fullnægja lágmarksskilyrði stjórnarskrárinnar. Stjórnarskráin útilokar því ekki að atkvæðavægi geti verið mun jafnara en það er í dag. Lög um kosningar til Alþingis gera það þó með því að kveða á um að breytingar á fjölda kjördæmissæta megi ekki víkja lengra frá hinu tvöfalda vægi en nauðsyn krefur.

Ég ætla að fara aðeins yfir þróunina á vægi atkvæða eftir kjördæmum. Lengi hefur verið barist fyrir jöfnun atkvæðavægis á Íslandi og Brynjólfur Pétursson, lögfræðingur og þá stjórnardeildarforseti og einn Fjölnismanna eins og við þekkjum, bar fram tillögu þess efnis fyrir rúmum 170 árum. Ýmsir þingmenn sem eru og hafa verið á þingi hafa lagt fram frumvörp, stjórnarskrárfrumvörp og þingsályktunartillögur með ólíkum leiðum að því marki. Í ræðu um breytingar á stjórnskipunarlögum hinn 15. júní 1999 sagði fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps m.a., og það í sinni jómfrúrræðu:

„Réttur hvers manns til að kjósa sér fulltrúa á löggjafarþing landsins, Alþingi, er einn mikilvægasti hlekkurinn í lýðræðiskeðju okkar Íslendinga. Slíkur réttur er ekki og á ekki að vera verslunarvara í pólitísku dægurþrasi. Vissulega þarf að gæta að byggð í landinu og reyna að jafna aðstöðumun hinna dreifðu byggða landsins. En það verður ekki gert með því að meta kosningarrétt einstaklinganna á mismunandi hátt. Hann verður ekki metinn í krónum, vöttum eða kílóriðum. Kosningarrétturinn á að vera fyrirvaralaus.“

Atkvæðavægi íslenskra kjósenda hefur verið ójafnt frá því að fyrst var kosið til endurreists Alþingis árið 1844. Væginu hefur þó verið breytt nokkuð og munurinn minnkaður en í núverandi löggjöf er þó látið duga að staðnæmast við það mesta misvægishlutfall sem heimilt er samkvæmt fyrrgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er aldrei reynt að fara í hina áttina.

Ef við skoðum misvægi milli þingmanna þingflokka voru jöfnunarsæti fyrst tekin upp árið 1934 og hlutu þá nafngiftina uppbótarsæti. Fram að því hafði ætíð verið afar mikið misvægi milli þingstyrks flokkanna og landsfylgis þeirra. Þetta var síðan að nokkru leiðrétt árið 1934 og síðan aftur 1959, en þó ekki nægilega. Til þess voru uppbótarsæti einfaldlega ætíð of fá. Það var fyrst með breyttum lögum um kosningar til Alþingis 1987 sem það náðist að koma á fullum jöfnuði. Svo varð svo lengi sem þau lög giltu, eða til aldamótanna, og mátti þá ekki tæpara standa með fjölda jöfnunarsæta, sem voru reyndar ekki nefnd því nafni í lögunum. Um aldamótin tóku síðan við ný lög sem náðu síðan áfram að tryggja þennan umrædda jöfnuð í næstu þrennum þingkosningum, þ.e. árið 2003, 2007 og 2009. Ég er að tala hér um misvægi milli þingflokka, ég er að fókusera á þingflokkana. Síðan hefur markmiðið um jafnvægi á milli þingflokka ekki náðst í kosningum, hvorki 2013, 2016, 2017 né 2021. Í hverjum þessara kosninga hefur eitt þingsæti í rauninni rambað á rangan þingflokk miðað við heildaratkvæðatölu flokkanna. Er þá miðað við skiptingu þingsæta sem fengist með reiknireglu d'Hondts. Þá er ekki hirt um þau stjórnmálasamtök sem ekki náðu 5% lágmarksfylgi, sem er samkvæmt stjórnarskránni skilyrði þess að eiga tilkall til jöfnunarsæta. Þetta er reyndar eitt af því sem ég tel og taldi við stjórnarskrárvinnuna á síðasta kjörtímabili að við ættum að skoða, að lækka þennan þröskuld í þágu lýðræðis. Við getum alveg deilt um það hvort hann eigi að vera 2, 3 eða 4% en ég tel ekki fjarri lagi að við lækkum hann a.m.k. niður í 4%.

Til fróðleiks má geta þess að í frægum dómi stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins Þýskalands frá árinu 2008 var gerð um það krafa að fullur jöfnuður næðist milli þingflokka við kosningar til Sambandsþingsins. Það vafðist lengi fyrir Sambandsþinginu að framfylgja þessum dómi en niðurstaðan var að bæta skyldi við þingsætum til jöfnunar allt þar til að þetta markmið næðist, það markmið sem stjórnlagadómstóllinn sagði að væri krafa um, að fullur jöfnuður næðist milli þingflokka. Afleiðingin er sú að núna sitja 736 þingmenn á þinginu í stað þess fjölda sem þeir ættu með réttu að vera, eða 598 talsins, og gætu þeir orðið enn fleiri í komandi kosningum hjá Þjóðverjum. Sú lausn á hliðstæðum vanda okkar hér á landi sem lögð er til með þessu frumvarpi er ekki af þessum toga. Fullur jöfnuður milli þingflokka getur náðst án þess að fjölga þurfi þingmönnum.

Ef við skoðum vægi atkvæða á Norðurlöndum þá var í skýrslu stjórnmálafræðinganna Birgis Guðmundssonar og Grétar Þórs Eyþórsson til stjórnlaganefndar árið 2011 nefnt að Ísland hafi gengið lengst Norðurlandanna í misvægi milli kjördæma og flokka þrátt fyrir að öll Norðurlönd viðhafi kjördæmaskiptingu líkt og Ísland sem og öll önnur vestræn lýðræðisríki. Nánar tiltekið sé atkvæðavægið að fullu jafnað í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð á meðan Noregur og Ísland hafa misjafnt atkvæðavægi dreifbýlisvæðum í hag og þéttbýlissvæðum í óhag, sem var t.d. þrefalt meira á Íslandi en í Noregi í kosningunum 1997 og 1999.

Jafnt vægi atkvæða felur í sér almennt lýðræðislegt gildi sem eftirsóknarvert er að stefna að. Það er ekki eingöngu mikilvægt til að styrkja lýðræðið og tryggja jafnan rétt borgaranna óháð efnahag, óháð kyni, óháð uppruna, búsetu eða öðrum viðeigandi þáttum. Það er einnig mikilvægur liður í því að tryggja pólitíska sátt og auka samkennd, auka skilning og réttlæti í samfélaginu. Við byggjum ekki upp réttlátt samfélag, við byggjum ekki upp farsælt samfélag með því að viðhalda misskiptingu í kosningakerfinu. Ekki verður horft fram hjá því að einn einstaklingur, eitt atkvæði, er sjálfsögð krafa í nútímalegu lýðræðissamfélagi.

Skoðum síðan efni frumvarpsins um jöfnun atkvæðavægis. Ég er búin að fara yfir bæði vægi atkvæðanna á Norðurlöndunum og síðan hef ég farið yfir þetta misvægi sem er á milli þingflokka hér á þingi. Af hreinum stærðfræðilegum ástæðum er ekki hægt að tryggja fyllilega jafnt vægi atkvæða án þess að afnema kjördæmaskiptinguna og hún er stjórnarskrárbundin. Henni verður því ekki breytt með almennum lögum. Við sjáum hversu erfitt hefur verið að breyta stjórnarskránni. Það var náttúrlega eftirminnilegt á síðasta kjörtímabili hvernig við formenn flokkanna fórum í það mál. Ég var bjartsýn mjög lengi eða framan af á að við myndum ná ákveðnum áföngum í stjórnarskrárbreytingum, skynsamlegum breytingum á II. kafla stjórnarskrárinnar, svonefndum forsetakafla og um framkvæmdarvaldið. Við náðum samkomulagi um íslenskuákvæði í stjórnarskrá og við náðum samkomulagi um umhverfisákvæði en það náðist ekki samkomulag um auðlindakaflann. Fyrr í dag var verið að ræða Evrópusambandið og það er að vissu leyti hjákátlegt að ræða og hlusta á áhyggjur þeirra sem eru á móti ESB út af auðlindum en á sama tíma stoppa allar breytingar sem eru til framfara varðandi auðlindamál í stjórnarskrá. Það var komið í veg fyrir það á síðasta þingi af sérstaklega tveimur stjórnarflokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Ég skynjaði mikinn vilja hjá forsætisráðherra til að reyna að ná fram þessum skynsamlegu breytingum en hún varð að lúta í gras gagnvart þeim íhaldssömu sjónarmiðum sem sett voru fram af hálfu hinna tveggja stjórnarflokkanna. Þetta var sárt að upplifa en það var líka svolítið sérstakt að upplifa það að við sameinuðumst um það að reyna að rýna frekar hverjar áherslur þjóðarinnar væru og fórum við í rýnikönnun um hver forgangsmál þjóðarinnar væru. Það voru tvímælalaust tvö mál. Annars vegar að það kæmi auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við klikkuðum á því. Þeir flokkar sem vilja litlar breytingar náðu sínu gegn og við vitum hverjum kyrrstaðan nýtist best, þessi stöðnun þegar kemur að auðlindamálum og að tryggja þjóðinni ótvíræðan rétt yfir auðlindum sínum. Hitt málið var að þjóðin vildi tvímælalaust að það yrði tekið inn í stjórnarskrárvinnuna að vinna að jöfnu vægi atkvæða. Það kom alveg skýrt fram í þessari rýnikönnun sem við sammæltumst um að við ætluðum að fara eftir til þess að breyta, til að skoða m.a. verklagið hjá formönnum. Það var síðan ekki farið í það. Hún kemur því ekki á óvart þessi afturhaldssemi, hræðsla af hálfu þessara gömlu flokka við að fara í allar breytingar til að reyna að jafna vægi atkvæða.

Gott og vel, það er þá allt bundið við stjórnarskrána. En eins og ég segi byggir þetta frumvarp á því að við erum ekki að breyta stjórnarskránni heldur að reyna að stíga skref í átt að eins jöfnu atkvæðavægi og hægt er, bæði jöfnu atkvæðavægi íbúa hvar sem þeir eru staddir á landinu en líka að reyna að minnka misvægið á milli flokkanna. Í frumvarpinu er lagt til að eftir hverjar þingkosningar muni landskjörstjórn ákvarða tölu þingsæta í hverju kjördæmi upp á nýtt, miðað við sömu kjördæmaskipan. Lagt er til að hvert kjördæmi hljóti sex kjördæmissæti í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Tölu kjósenda í hverju kjördæmi er síðan deilt með tölunum sex, sjö, átta o.s.frv. 27 hæstu útkomutölurnar ráða því hversu mörg þingsæti umfram hin sex föstu — muna: sex föst þingsæti í hverju kjördæmi — verða í hverju kjördæmi í næstu kosningum. Fyrsta deilitalan hér er jöfn tölu þeirra sæta sem þegar hefur verið ráðstafað með sex stjórnarskrárbundnum kjördæmissætum. Hér er beitt deilireglu þeirri sem kennd er við John Adams, annan forseta Bandaríkjanna, og má líta á hana sem tilbrigði við reglu d'Hondts, þeirri sem beitt er í ýmsum greinum kosningalaganna. Regla d'Hondts hefur tilhneigingu til að hygla stærstu kjördæmunum en segja má að regla Adams sé andstaðan, að vera fremur hliðholl minnstu kjördæmunum. Munurinn er sá að samkvæmt reglu d'Hondts væri byrjað að deila með sjö en ekki sex eins og samkvæmt reglu Adams. Engu að síður flokkast báðar reglurnar meðal viðurkenndra hlutfallsreglna í fræðiritum enda þótt þær séu á sitthvorum jaðri slíkra reglna. Ég veit að vinur minn og fyrrum þingmaður, Pawel Bartoszek, væri mjög til í að taka þátt í þessari umræðu og útskýra nákvæmlega fyrir öllum sérstaklega tilbrigði við stef við þessar reiknireglur. En það má kannski líka segja að af því að þetta er svo flókið þá hefur mörgum þótt erfitt að fara út í þessar breytingar. Við þurfum að byggja grunninn og ef við miðum við þennan ramma, óbreytta stjórnarskrá, hvernig ætlum við að reyna að ná þessu? Við verðum að nýta stærðfræðina til þess að leiða okkur áfram í átt að auknu réttlæti.

Ef við skoðum efni frumvarpsins um jöfnun milli flokka er annað meginmarkmið frumvarpsins að tryggja fullan hlutfallslega jöfnuð á milli þingflokka. Það er gert með því að skilgreina öll sætin, önnur en þau stjórnarskrárbundnu, sem jöfnunarsæti. Þetta verður að teljast skilvirkari og varanlegri leið en sú þar sem fjöldi jöfnunarsæti er seint og um síðir aðlagaður út frá síbreytilegum fólksfjölda og lýðræðislegri þróun hverju sinni og þó að jafnaði hvergi í nægum mæli, þannig að það sé tekið fram. Ætla má að með svona mörgum jöfnunarsætum ráði úrslitin í kjördæmunum ekki nema að hluta til því hvernig sætin skiptast síðan innbyrðis á milli kjördæmislistanna.

Ég vil geta þess að eftir að við lögðum þetta mál fram á síðasta þingi þá bárust nokkrar umsagnir sem ég tel vert að vísa stuttlega til. Flestar þeirra voru jákvæðar í garð þeirra breytinga sem lagðar voru til með því frumvarpi sem nú er verið að flytja aftur. Umsagnirnar bárust m.a. frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Reykjavíkurborg og byggðaráði sveitarfélagsins Skagafjarðar. Í umsögn Mannréttindaskrifstofunnar var til að mynda vísað til þriggja skýrslna Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, um skoðun framkvæmdar kosningar á Íslandi 2009, 2013 og 2017 þar sem bent var á að misvægi atkvæða bryti í bága við ákvæði í Kaupmannahafnarskjalinu svonefnda sem samþykkt var 1990 þegar aðildarríki stofnunarinnar samþykktu grunnreglur um mannréttindi og skuldbundu sig til að halda lýðræðislegar kosningar samkvæmt tilgreindum reglum. Mannréttindaskrifstofan taldi einnig að ójafnt vægi atkvæða bryti gegn jafnræðisreglum þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og yfirlýsinga sem Ísland er aðili að, sem var einnig tekið fram í fyrrnefndum skýrslum ÖSE. Það er því að búið að segja margoft í skýrslum erlendra höfunda að við höfum verið að brjóta alþjóðlega mannréttindasamninga.

Jafnframt má nefna það sem Ólafur Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur sagt um nauðsyn þess að leiðrétta það misvægi atkvæða sem að óbreyttu ríkir milli flokka og íbúa víða um land. Hann hefur margítrekað þetta og komið með tillögur þar um. Umræddur prófessor hefur staðið fyrir umfangsmiklum kosningarannsóknum í öllum alþingiskosningum síðan 1983. Víðtækar rannsóknir liggja fyrir, tölur og gögn sem við hljótum að skoða vel og ummæli hans í allri þessari umræðu hljóta því að hafa mjög mikið vægi. Hann hefur einnig bent á að jöfnuður milli flokka hafi ekki náðst síðan í kosningunum 2009 sem er auðvitað brýnt að leiðrétta, eins og t.d. með þeim breytingum sem eru lagðar til í frumvarpinu. Hann hefur líka dregið fram, og reyndar fleiri, að stjórnarskráin geri ráð fyrir því að kosningalögin tryggi samræmi milli atkvæðahlutfalls flokka á landsvísu og síðan þingmannatölu flokkanna. Þetta kemur mjög glögglega fram í greinargerðum og fylgiskjölum með stjórnarskrárfrumvarpinu sem var samþykkt á þinginu 1999. Þá var ýmsum útfærsluatriðum kosningakerfisins, sællar minningar, kippt út úr stjórnarskrá og Alþingi falið að fjalla um þau í kosningalögum. Það voru augljósar ástæður fyrir því. Þá yrði einfaldara að kippa augljósum vanköntum í liðinn án þess að breyta stjórnarskránni, af því að það er þungt að breyta stjórnarskránni. Alþingi var falið það gæsluhlutverk að passa upp á þessi grunnatriði og þá hugsun stjórnarskrárinnar að hafa misvægi atkvæða sem allra minnst. Þannig að frá árinu 1987 til ársins 2009 var þingmannatala flokka í samræmi við fylgi þeirra á landinu öllu, eins og Ólafur Harðarson hefur bent á. Áður hafði t.d. Framsóknarflokkurinn alltaf grætt á kosningakerfinu. Frægast er 1931 þegar Framsókn fékk ríflega þriðjung atkvæða en tæplega 60% sæta á þingi. Allt frá 1959 hefur Framsókn grætt á þessu kosningakerfi eitt til tvö sæti. Í kosningunum 2013 náðist þetta jafnvægi milli flokka ekki. Framsókn fékk þá einum þingmanni of mikið á kostnað VG. 2016 fékk Sjálfstæðisflokkurinn einum þingmanni of mikið á kostnað VG. 2017 fékk Framsókn einum þingmanni of mikið á kostnað Samfylkingar. 2021 fékk Framsókn síðan einum þingmanni of mikið á kostnað Sjálfstæðisflokks.

Það hefur því ekki tekist að ná markmiði stjórnarskrárinnar fernar kosningar í röð og hafa Ólafur og fleiri fræðimenn bent á þetta. Það er sáraeinfalt að laga þetta með því að fjölga jöfnunarsætum og fækka kjördæmissætum í kosningalögum. Það getur einfaldur meiri hluti alþingismanna gert og út á þetta gengur þessi tillaga okkar.

Ég vil líka geta þess að það eru sumir sem vilja jafna vægi atkvæða eftir búsetu, skiljanlega, en það hefur ekki verið eining um það. Stjórnarskráin leyfir slíka breytingu. Það er hægt að jafna þetta vægi nokkuð skýrlega með einföldum meiri hluta á þingi, með breytingu á kosningalögum. Þá yrðu þingmenn Norðvesturkjördæmi sex, þingmenn Norðausturkjördæmis sjö, þingmenn Suðurkjördæmis tíu, þingmenn hvors Reykjavíkurkjördæmis 11, Reykjavík með samtals 22 og þingmenn Suðvesturkjördæmis yrðu 18. En undanfarin ár hafa 35 þingmenn komið inn á suðvesturhorninu, eða allt frá árinu 2003. Fram að því höfðu landsbyggðarþingmenn verið í meiri hluta á þingi. Þessir 35 þingmenn suðvestursvæðisins, Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis, hafa hins vegar kosið að nota meiri hluta sinn ekki til að rétta af hluta suðvesturhornsins og jafna vægi atkvæða eftir búsetu. En núna er komið tækifæri til að reyna að ná þessu fram.

Mig langar að fara stuttlega yfir hvað stjórnarflokkarnir sjálfir hafa sagt. Ég ætla ekki að fara að rýna mjög langt aftur í það sem þeir allir hafa sagt á landsfundum sínum og kjördæmisþingum eða flokksþingum. En í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2021 kemur fram um þessa þætti, stjórnarskrá og kosningalög, að ríkisstjórnin muni setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan og að efnt verði til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar. Hér er tækifæri til þess að grípa einmitt þetta frumvarp sem miðar að þessu. Ég geri bara ráð fyrir því og ætla bara að ætla það að þetta frumvarp verði til þess að ýta við forsætisráðherra að fara að skipa þennan starfshóp en ég óttast að enn eitt skiptið munum við ekki sjá fram á neinar breytingar, að þetta verði bara enn ein nefndin, 45 manna nefndin eða hvaða nefnd sem þau eru svo fær í að skipa. Þetta er réttlætismál, þetta er almannahagsmunamál og þetta er lýðræðismál.

Ég vil nefna að í maí síðastliðnum sagði hæstv. forsætisráðherra í viðtali við Vísi að það væri mikilvægt að skoða einmitt þessar breytingar á kosningalögum og það væri líka best að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins myndi ræða þetta mál, en hún sagðist einnig hafa rætt þetta þegar annars staðar á vettvangi stjórnarskrárbreytinga. Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við Vísi þann 11. maí að það væri tímabært að endurskoða kosningalöggjöfina, enda væri óheppilegt að jöfnunarþingsæti kölluðust ekki á við fjölda flokka á þingi. Hann tók fram að hingað til hefði þó málið lítið verið rætt á vettvangi þingsins. Við lögðum þetta mál fram á síðasta þingi. Við leggjum það aftur fram núna til þess einmitt að ýta við umræðunni, ýta við ríkisstjórninni sem getur haft frumkvæði að því að þetta mál fari einfaldlega í gegn á þingi eftir samráð við fræðasamfélagið. Það er líka rétt að geta þess að Sjálfstæðisflokkurinn var aðili að ríkisstjórninni skammlífu, frjálslyndu ríkisstjórninni 2016, en samkomulag milli flokkanna Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins fól m.a. í sér endurskoðun á kosningalögum með það að markmiði að reyna að jafna vægi atkvæða. Það samkomulag er náttúrlega algerlega í takt við kjarnann sem ég gat um áðan, kjarnann í stefnu Viðreisnar, grunnstefnu Viðreisnar um að það eigi að gilda jafnt vægi atkvæða á Íslandi og ég veit að það sama gilti hjá Bjartri framtíð í grunnsamþykktum þeirra.

Virðulegur forseti. Ég vonast til að þetta fái góða umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við erum að mæla fyrir þessu núna í upphafi þings, og af hverju erum við að gera það? Af því að það var samkomulag milli flokkanna um að leggja áherslu á þrjú mál. Þetta er eitt af þeim. Við ræddum hér fyrr í dag um Evrópumálin, um að þjóðin fái tækifæri til að taka næstu skref og ákveða hvort við eigum að halda áfram með aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Þetta er líka áherslumál af hálfu Viðreisnar. Við erum fyrstu flutningsmenn á þessu máli en ég vil geta þess að það eru líka flutningsmenn úr öðrum flokkum, úr Samfylkingunni og Pírötum, sem styðja þetta mál eins og það liggur fyrir. Ég vonast til þess að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari vel yfir málið og komi því síðan aftur inn í þingið því að við þurfum á þessari lýðræðislegu umræðu að halda og ekki síður atkvæðagreiðslu um þetta mál til að ná fram réttlæti í íslensku samfélagi; jöfnu vægi atkvæða.