Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:39]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið snúin spurning. Það er erfitt að snúa við flugmóðurskipi, sama hverrar þjóðar það er. Þessi leið er farin af því að reynsla mín er sú að það er snúið að breyta stjórnarskránni. Við erum kannski ekki á sama máli nákvæmlega varðandi stjórnarskrána, ég tel að það eigi að fara í breytingar á stjórnarskránni en þær eigi að vera ígrundaðar og hófsamar. En það má heldur ekki nota þetta sjónarmið mitt og þeirra sem vilja fara í tilteknar breytingar á stjórnarskránni til að stöðva allar breytingar á stjórnarskránni. Það er það sem ég þoli ekki að hefur verið misnotað. Það er útséð um breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili. Það er ekki búið að kalla saman formenn aftur. Það á að skipa einhvern samráðshóp um stjórnarskrárbreytingar, klukka ákveðna hópa aftur, en miðað við núverandi samsetningu á ríkisstjórn er mér til efs að við náum fram einhverjum raunverulegum breytingum á alvörumálum fyrir þjóðina. Þá er ég náttúrlega með auðlindaákvæðið í huga og ákvæði um jafnt vægi atkvæða. Það þjónar ekki stjórnarflokkunum að breyta nákvæmlega þeim hluta stjórnarskrárinnar eða bæta inn í stjórnarskrána út af auðlindamálum. En þessi leið er einföld. Hún er sett eftir að við ráðfærðum okkur við sérfræðinga, bæði prófessora sem voru nefndir hér áðan en líka stærðfræðinga sem þekkja mjög vel til kosningakerfisins. Við erum að reyna að fara þá leið að breyta þessu — ef við erum almennt sammála um þetta markmið. Það þarf þá bara að spyrja landsbyggðarþingmenn. Ég vil ekki horfa á þetta sem landsbyggð á móti þéttbýli. Ég er að reyna að forðast það. Það er einfaldlega réttlætismál að við leiðréttum þetta. Það er ákveðin þjónusta og fleira sem landsbyggðin þarf á að halda umfram okkur hér á suðvesturhorninu (Forseti hringir.) og síðan eru aðrar þarfir hér á suðvesturhorninu sem þarf líka að taka tillit til. En ég fæ leyfi hv. þingmanns (Forseti hringir.) að svara betur í mínu seinna andsvari því að þetta kallar svolítið á betri skýringar.