Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör sem ég held að við séum alveg sammála um að flestu leyti. Bara örlítil spurning, af því að ég veit að hv. þingmaður vildi koma að lengra svari. Eitt sem þessi aðferð gerir er að það verða ansi mörg jöfnunarsæti og við sáum hvaða áhrif endurtalningar og annað gat haft á þau á landsvísu. Telur hv. þingmaður að það gæti haft jafnvel enn meiri hringekjuafleiðingar að vera með 27 jöfnunarsæti? Svo langar mig líka að spyrja hv. þingmann um töflu 2. Þar er dregin saman tölfræði um það hversu nálægt er hægt að komast því að vera með jafna úthlutun á flokka og kjördæmi, að hún sé sem réttlátust. Veit hún hvort þessi keyrsla á þessum 5.000 kosningaúrslitum var miðuð við þann raunveruleika sem við erum með í dag, að það er að fjölga ansi mikið flokkum í framboði? Þegar upprunalega kosningakerfið var búið til var það fyrir fjóra flokka eða jafnvel færri. Þá var jöfnunin betri. En eftir því sem að við fjölgum flokkum þeim mun erfiðara verður að ná þessari jöfnun. Veit hv. þingmaður hvort það var gert ráð fyrir því að hér fer flokkum fjölgandi?