Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:52]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki get ég gert neitt annað en að taka undir söguskýringu og umfjöllun hv. þm. Birgis Ármannssonar. Allar þessar mikilvægu breytingar áttu sér stað samhliða stjórnarskrárbreytingum og ég ætla ekkert að fara að tala um í einhverri nostalgíu breytinguna 1959 sem leiddi síðan af sér ríkisstjórn sem var ein sú farsælasta í sögunni, frá 1959–1971, minnir mig, og var kennd við viðreisn, viðreisnarstjórnin. En það var m.a. í kjölfarið á kosningunum 1959 og þeirri uppstokkun sem átti sér stað þá og auknu réttlæti. Ég segi bara: Guð láti gott á vita ef það er þannig að þeir tónar sem koma innan úr Sjálfstæðisflokknum, sem mér þykir vænt um, geti verið einhver fyrirheit um að við munum sjá fram á breytingar á stjórnarskránni þegar kemur að atkvæðavæginu. Af því að það var lífsins ómögulegt á síðasta kjörtímabili að fá meira að segja einhverja vitræna umfjöllun inn á borð formanna um það að jafna vægi atkvæða þrátt fyrir að rýnikönnunin sem við létum framkvæma hafi undirstrikað það að vilji þjóðarinnar í þeim efnum varðandi stjórnarskrárbreytingar lá fyrst og fremst í því að fá almennilegt auðlindaákvæði og jafna vægi atkvæða.

Eftir þessa framsöguræðu um þetta mikilvæga mál verð ég að segja að ég er svolítið spenntari fyrir þessum þingvetri en áður þegar kemur að þessu máli. Ég vona að við höndlum það og getum sammælst um að reyna að vinna þetta mál vel og fá það síðan vonandi til þingsins aftur til að geta greitt atkvæði um það að fara í réttlætisátt með því að jafna vægi atkvæða.