Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[15:55]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svar. Sveitarfélög og ríki eru sitthvort stjórnsýslustigið samkvæmt lögum og hafa mismunandi viðfangsefni og ég hræðist það að ríkið, þegar það nær ekki sínu fram, breyti þá bara lögum sér í hag, taki þennan rétt af sveitarfélögunum. Ég get auðvitað skilið eitthvað sem heitir almannahagur en það er líka til eitthvað sem heitir að koma til móts við sveitarfélögin. Hér nefndi hæstv. ráðherra mál sem ég þekki og við vitum af sem er Suðurnesjalína 2, þar sem eitt sveitarfélag hefur ekki samþykkt þá áætlun sem fyrir lá en er tilbúið með ákveðnum breytingum, en Landsnet þumbast við og er ekki tilbúið í breytingar og ber fyrir sig gamla þingsályktun þar sem þeir eiga alltaf að velja ódýrasta kost. Það var búið að segja að það ætti að laga þessa þingsályktun fyrir mörgum árum síðan. Það hefur aldrei verið gert. Ég er alveg viss um að ef það hefði verið hlustað á þetta þá, þá værum við ekki í þessari stöðu með Suðurnesjalínu 2. Þetta var til umræðu m.a. um helgina á þingi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og þar kom m.a. fram að munur á jarðstreng og raflínu er bara orðinn óverulegur miðað við hvað hann var í upphafi. Ég hræðist það að verið sé að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum með þessum hætti.

Mig langar líka aðeins að spyrja, af því að hér er nefnt samráð og að það byggist á tillögum starfshóps sem var skipaður m.a. af fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Skipulagsstofnunar, hvort það hefði verið samhljómur í nefndinni? Hverjir voru í henni, voru fleiri í nefndinni en bara þessir aðilar? Komu fram einhverjar raddir sem mæltu gegn þessu?