Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[15:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða Suðurnesjalínu 2 hér og ólíkar forsendur fyrir jarðstreng og alla þá sögu sem þar er, ég held að við þurfum lengri tíma en tvær mínútur í það. En sumt af því sem hv. þingmaður sagði hér held ég að sé ekki alveg alls kostar rétt eða það megi túlka hlutina á ýmsan hátt. Það sem hefur verið að gerast á síðustu misserum kallar á sérstaka nálgun hvað það varðar, að menn séu ekki fastir í einhverri fortíð, ég get tekið undir með hv. þingmanni með það, eins og eldgos og slíkir hlutir.

Við erum með sambærilega löggjöf á þessu sviði og Norðurlöndin. Ég var í Finnlandi í fyrra og spurði m.a. finnsku skipulagsyfirvöldin sem ég hitti hvað þau gerðu þegar kæmi upp til að mynda, og var þá með þetta frumvarp í huga, vandamál er varðaði skipulag í gegnum fleiri en eitt sveitarfélag, hvort það kæmi ekki upp það vandamál að í einhverjum tilvikum gæti eitthvert eitt sveitarfélag sagt: Við viljum ekki leggja þennan veg eða við viljum ekki þessa raflínu. Ég var að hugsa um raflínur. Svarið sem ég fékk fannst mér áhugavert vegna þess að það laut að því að þar sem um augljósa almannahagsmuni væri að ræða þá tækju sveitarfélög almannahagsmunina fram yfir sína eigin. Mér finnst það áhugavert vegna þess að við erum með sambærilega löggjöf. Við hér á Íslandi höfum hins vegar ítrekað lent í vanda. Þessi löggjöf var samin eftir fárviðri þar sem í ljós kom að á þó nokkrum stöðum hefði verið möguleiki að leggja raflínur með öðrum hætti en það hafði ekki fengist heimild fyrir því. Þess vegna sögðu menn: Eigum við ekki að finna einhverja einföldun á þessu kerfi innan ramma laganna og án þess að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum, án þess að skerða samráð eða kynningar eða nokkurn skapaðan hlut? Þetta er afraksturinn. (Forseti hringir.) Ég held að við stöndum frammi fyrir þessari stóru áskorun: (Forseti hringir.) Hvernig getum við tryggt að almannahagsmunir gangi framar ef einhver vill það alls ekki og er meira að passa sína eigin hagsmuni en almannahagsmuni?