Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar ráðherra tekur þá ákvörðun að leggja fram stórt og viðamikið þingmál um mánaðamótin mars/apríl verður að tilgreina í þingmálaskrá að það sé lagt fram í mars, það er síðasti mánuður sem má leggja mál fram, þá blasir við að málið getur ekki fengið fullnægjandi meðferð á þingi. Þannig er það. Vorþingi lýkur í byrjun júní og umsagnarfrestur er tvær vikur. Það er fjöldinn allur af málum sem er inni hjá hverri fastanefnd á þessum tíma. Hafi verið vilji hjá hæstv. heilbrigðisráðherra sem tók við í desember, fyrir níu mánuðum síðan, að leggja fram mál af þessum toga þá hefði það átt að koma fram núna í upphafi þings en ekki setja það á þingmálaskrá til framlagningar undir lok vorþings. Þannig að nei, ég held að það séu engar líkur á því að mál hæstv. heilbrigðisráðherra verði samþykkt á þessu þingi og ég efast um að það komi fram.