Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[18:24]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekkert ósammála um það að auðvitað setjum við stefnuna hér. Ég er bara að velta því fyrir mér hvort það séu einhver skref sem við getum tekið áður en þetta verður nákvæmlega það sem við gerum. Ég sagði í minni ræðu að ef við förum í heildarendurskoðun á málaflokknum þá gæti það jafnvel orðið niðurstaðan að við ákveðum að lögleiða fíkniefni. Vandamálið er það að mér finnst mat á áhrifum ekki verið greint nógu vel í frumvarpinu. Mér finnst ekki hafa verið sett fram nægilega heildræn sýn eða stefna í þessum málaflokki, nema um akkúrat þetta, og þetta finnst mér vera allt of rýrt. Mér finnst þetta ekki ganga í þá átt að við séum í alvöru að fara að hjálpa fólki, að við séum að fara að grípa það með fleiri meðferðarúrræðum. Það er mín persónulega skoðun og ég vil byrja þar. Það er vissulega stefna að ákveða að setja meira fjármagn í að hjálpa fólki. En spurningin er kannski að opna flóðgáttirnar eða vera tilbúin með skipin til að setja fólkið í fyrst til að bjarga því. Ég myndi vilja byrja þar. Það er mín afstaða í dag. En eins og ég segi þá er ég mjög hlynnt því að við myndum að hafa það hugrekki að nálgast þennan málaflokk með þessa heildarstefnu og sýn, að við viljum gera þetta af mannúðarástæðum, að við viljum hjálpa fólkinu og byrja á A og enda á Ö.