Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:05]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur kærlega fyrir ræðuna. Mér láðist að segja „heyr, heyr“, svo ég geri það bara hér með: Heyr, heyr. Það voru ótrúlega margir góðir punktar í þessari ræðu og ég hef stuttan tíma. Mig langaði bara fyrst að nefna, þegar hv. þingmaður fór að velta því fyrir sér hvort kannabis væri oft ástæða ofneyslu eða önnur tengd lyf, að ég er bara með þetta hérna fyrir framan mig. Það er ekki kannabis. Það eru lyf eins og oxýkódon, alprazolam, gabapentin, kamadol, buprenorphine, pregabalin, morfín — ég er örugglega ekki að bera þetta fram rétt — en ekkert af þessum lyfjum heyrir undir það frumvarp sem hér er til umræðu, þessi lyf sem valda ofeitrun og andláti. En mig langaði að spyrja hv. þingmann, af því að hún nefndi lögregluna og ummæli í hennar garð og hennar þátt í þessari umræðu sem hefur verið mjög hávær undanfarið, hvort hv. þingmanni þyki lögreglan njóta sannmælis í þessari umræðu. Mín persónulega upplifun af lögreglunni er sú að það séu eiginlega fáir sem taka jafn virkan þátt í skaðaminnkandi aðgerðum og lögreglan. Mig langaði bara að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa.