Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:46]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir sína ræðu og þessa umræðu sem hefur verið tekin hér sem ég er sammála að sé mjög góð. Hún er málefnaleg og hún er góð. Mig langaði bara til að koma að örfáum atriðum sem ég hef hnotið um. Í fyrsta lagi er það stefna íslenskra stjórnvalda að takmarka aðgengi að vímuefnum og grundvallarmarkmiðið þar er að vernda viðkvæma hópa, sérstaklega börn. Mér fannst ég verða að taka þetta fram þar sem forsvarsmaður þessa máls heldur því staðfastlega fram að hér hafi enginn árangur náðst með stefnu stjórnvalda í fíkniefnamálum. Þvert á móti hefur náðst undraverður árangur þegar kemur að börnum og ungmennum, svo undraverður að hann er orðinn útflutningsvara. Ísland er heimsþekkt fyrir árangur í því að vernda börn og ungmenni fyrir skaðlegum áhrifum fíkniefna. Ég treysti því að flutningsmenn málsins þekki þessi mál í þaula, þekki það hversu gríðarlega vímuefnaneysla ungmenna hefur dregist saman frá upphafi mælinga árið 1992. Það er ekki enginn árangur. Ég mótmæli því harðlega. Það er til mikils að vinna að börn og ungmenni neyta ekki vímuefna. Í greinargerð með því frumvarpi til laga sem um ræðir kemur skýrt fram að refsingar fyrir vörslu svokallaðra vörsluskammta fíkniefna eru sektir, sem ég get upplýst um að eru lægri en umferðarlagasektir. Þá kemur þar sömuleiðis fram að brot fyrir vörslu fíkniefna komi ekki fram á sakavottorði. Því skýtur það skökku við að hlusta á flutningsmenn frumvarpsins fara yfir það hér í þessari umræðu að fólk sitji jafnvel í fangelsi fyrir vörslu neysluskammta. Það er kolrangt. Sömuleiðis hef ég fengið lögð fram gögn hér á þinginu sem sýna að 84% þeirra sem lenda í refsivörslukerfinu fyrir vörslu neysluskammta gera það í tengslum við önnur brot. Varla leggja flutningsmenn til að þau brot, ofbeldisbrot, húsbrot eignaspjöll, séu gerð refsilaus.

Í greinargerðinni segir að frumvarpið muni leiða til þess að við skipum okkur í fremstu röð þegar kemur að heilbrigðisþjónustu við vímuefnaneytendur. Hvar eru ákvæðin um það í þessu frumvarpi? Hvar eru ákvæðin um að kerfið umvefji fólkið betur eins og hver Píratinn á fætur öðrum hefur farið hér upp til að segja? En hvað skyldi nú heilbrigðisstarfsfólki finnast um svokallaða afglæpavæðingu? Landlæknir varar við því að stíga þetta skref og Læknafélagið sömuleiðis og kallar eftir því að meðferðarúrræði séu efld og aukin. Sitjum ekki við orðin tóm. Hættum að kalla þetta heilbrigðisvanda þegar við viljum slá um okkur á ráðstefnum eða í hlaðvörpum og köllum eftir raunverulegum breytingum á kerfinu til að hjálpa fólki með vímuefnavanda, raunverulega hjálpa því.