Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

ummæli innviðaráðherra um skattamál.

[10:55]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. innviðaráðherra sagði núna um helgina í útvarpsviðtali að hann vildi skoða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, skattleggja í ríkara mæli sjávarútvegsfyrirtæki og fjármálafyrirtæki og aðila sem hagnast umfram það sem eðlilegt er og sanngjarnt. Þetta er í takt við orð varaformanns flokksins frá því í febrúar, hún talaði um hvalrekaskatt, nefndi sérstaklega sjávarútveg, fjármálamarkaði, sagði allan þingflokk Framsóknar styðja þá nálgun því að ef það sé ofurhagnaður einhvers staðar þá eigi að skattleggja hann. Hún ætlaði að sækja stuðning við tillögurnar í ríkisstjórn. Ef einhvern tímann ætti að sækja stuðninginn og standa við stóru orðin, þá er það núna, virðulegi forseti, núna þegar heimilin finna fyrir rýrnandi kaupmætti og hækkandi greiðslubyrði á meðan hvalreki safnast upp hjá fjármagnseigendum og í stórútgerð vegna eignaverðs- og afurðahækkana. Ekki segja mér hvað skiptir þig máli, sagði Biden Bandaríkjaforseti einu sinni, sýndu mér fjárlögin þín og ég skal segja þér hvað skiptir þig máli. Við höfum séð fjárlög þessarar ríkisstjórnar og þar er hvergi að finna hvalrekaskatt á fjármagn eða stórútgerð. Nei, aðeins viðbótargjöld á venjuleg heimili í landinu. Það er eins og fjárlög ríkisstjórnarinnar séu samin með það fyrir augum að lækka rostann í Framsóknarflokknum, sýna honum hver það er sem raunverulega ræður.

Því spyr ég hæstv. innviðaráðherra: Er Framsóknarflokkurinn algjörlega áhrifalaus þegar kemur að efnahagsmálum, ríkisfjármálum og skattamálum í þessari ríkisstjórn? Er þessi leikur Framsóknar í fjölmiðlum gerður til þess að breiða yfir þá staðreynd að flokkurinn hefur framselt einum flokki valdið í landinu?