Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

153. mál
[13:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í yfirliti mínu áðan þá eru kirkjugarðar sjálfseignarstofnanir með sérstöku fjárhaldi. Hlutverk þeirra er ekki bundið neinu sérstöku trúfélagi heldur eiga þeir hreinlega að vera grafreitastofnun óháð öllum trúfélögum. Á sínum tíma var þetta fyrirkomulag viðhaft varðandi bálfarir, að frumkvæði ákveðins hóps var stofnað félag sem stóð fyrir fjársöfnun til að koma á möguleikum á líkbrennslu á Íslandi. Það er búið að vera til skoðunar í ráðuneytinu núna hvernig þessum málum verður hagað til framtíðar og í þessu eins og öðru hefur tækninni fleygt fram. Það eru margir möguleikar í stöðunni og kostnaður við uppbyggingu á slíku er miklu minni en áður var og möguleikar á að hafa alla umgjörð miklu einfaldari. Við erum í farvegi með að ákveða það í ráðuneytinu hver tillaga okkar verður um framtíðarskipan þessara mála. Það þarf auðvitað að vera þannig að sá rekstur sé ekki háður neinum sérstökum trúfélögum. Þessi þjónusta er óháð trúfélögum og á að vera það. Það er mín skoðun.

Sú tenging sem er við þjóðkirkjuna í dag varðandi reksturinn á þessu og tenginguna við kirkjugarðinn, það er eitthvað sem við þurfum að skerpa á líka við þessar breytingar þegar þær liggja fyrir og það verður fyrr en síðar.