Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir framlagningu þessa máls og þakka fyrir boðið að fá að vera meðfylgjandi á þessu þarfa máli. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að þetta mál mun ekki valda straumhvörfum í íslensku samfélagi en við erum líka hér til að tryggja að litlir hlutir gerist sem geta haft grundvallaráhrif á líf fólks. Minni ég á þingmál sem var samþykkt hér á mínu fyrsta þingi er varðaði aðild feðra í faðernismáli sem andstæðingar sögðu að myndi valda slíkum usla í fjölskyldum landsins að það yrði að koma í veg fyrir þann óskapnað. Þar var bara verið að tala um þessa litlu réttarbót að faðir úti í bæ gæti látið kanna faðerni barns sem hann teldi sig eiga en það var ekki hægt áður, það var bara móðir og barn. Ég segi: Þetta er gríðarlega mikilvægt mál sem mun ekki varða alla í samfélaginu en mun skipta þá sem að málið varðar öllu. Kannski vegna þeirrar fyrirstöðu sem ég upplifði með þetta mál sem ég var að rifja upp þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvaða rök hefur hún heyrt gegn því að þetta mál geti og eigi að verða að veruleika? Ég held að það væri fróðlegt fyrir okkur að fá að heyra þau rök.