Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:36]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir andsvarið. Með þeim fyrirvara að málið á eftir alla sína þinglegu meðferð, þar sem ég á von á að það komi einhverjar athugasemdir eða vangaveltur varðandi það, þá verður að segjast að ég hef ekki fengið mikla gagnrýni á málið í þessa mánuði sem ég hef talað um það á opinberum vettvangi. Þetta er eins og ég segi í fyrsta skipti sem málið er sett formlega á dagskrá. Ég hef fengið eina athugasemd, ég verð að hugsa hvort ég sé ekki örugglega að segja satt, og hún sneri að því að einhverjir höfðu áhyggjur af því að með því að opna fyrir að það væri ekki skilyrt við sambúðarformið að geta farið í tæknifrjóvgun þá myndi fólk leika sér að því að eignast barn eins og gæludýr, eins og það var orðað við mig. Ég leyfi mér góðfúslega að benda viðkomandi á að það er nú svo sem þannig í lífinu almennt að það er hægt að eignast börn hvernig sem maður vill án þess að fá aðstoð tækninnar til þess. Ég verð að segja alveg eins og er að það er mér til efs að fólk ætli að leika sér að því að fara í mjög kostnaðarsamt ferli sem er ekki sársaukalaust, nema síður sé, í einhverju bríaríi eða gríni. Ég efast stórkostlega um það og ætla að lokum að leyfa mér að halda því fram að þeir sem hafa áhyggjur af þessum vinkli málsins hafa örugglega aldrei komið nálægt tæknifrjóvgunum eða þekkja nokkurn einasta aðila sem hefur staðið í þeim.