Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:39]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar hv. þingmanns. Ég efast ekki um að það sé eitthvert fólk í samfélaginu sem finnst fullmikið vera að molna undan einhvers konar hugmynd um hvað fjölskylda sé og hvernig hún eigi helst að vera. Það segir ekkert endilega allt þótt það hafi ekki verið sagt við mig. En ég efast ekkert um það. Þá langar mig bara að minna á, og það er einn angi þessa frumvarps sem mér þykir mjög vænt um að standa að, að ég trúi því mjög einlæglega að það er fólkið sem á að ráða því sjálft hvað því finnist vera fjölskylda miklu frekar en hið opinbera. Þegar lög um tæknifrjóvgun voru fyrst sett 1996 þá máttu samkynhneigðir ekki nýta sér þá tækni því það féll ekki á þeim tíma undir hugmynd löggjafans um hvers konar fjölskyldur þurfa að nýta sér þessa þjónustu, sem samanstóðu að sjálfsögðu af manni og konu eingöngu. Seinna meir liðkaðist fyrir í lögunum þannig að einstæðar mæður gátu staðið að tæknifrjóvgun og svo samkynhneigðar. Því höfum við smám saman lært og slakað á okkar eigin kröfu um stýringu á því hvað sé t.d. fjölskylda, sem er náttúrlega ótrúlega áhugavert umræðuefni fyrir seinni tíma. En þess vegna skiptir mig svo miklu máli að í staðinn fyrir að reyna að plástra og setja inn í mengið ný tilvik leyfum við fólki að ráða sér sjálft, skilgreina sig sjálft svo lengi sem öll réttindi, upplýsingar, vottorð og allt gagnvart barninu er á kristaltæru. En hið opinbera á ekki alltaf að segja hverjir mega taka þátt þegar engin ástæða er til þess.