Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er mér mjög mikill heiður að vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi sem er mikil réttarbót. Kannski ekki fyrir marga, en eins og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir benti á þá skiptir þetta öllu máli fyrir þá sem þetta snertir. Það er rétt, sem hv. þingmaður benti á, að hið opinbera vill stundum skilgreina hlutina allt of nákvæmlega í stað þess að gefa fólki frelsi til að ákveða ýmsa hluti. Vandamálið þegar við byrjum að skilgreina svona mikið er að það lenda alltaf einhverjir á milli, eins og við sjáum t.d. í þessum málum. Nei, þú verður að vera gift, annars gengur þetta ekki. Þegar maður les sum af þessum skilyrðum í dag hugsar maður: Hvað var verið að hugsa þarna 1996? Sum skilyrðin eru þannig að ég spyr sjálfan mig hvort þú þyrftir ekki líka að geta staðið á haus í tvær mínútur; skilyrðin eru svo rugluð, eins og þetta með sambúðarformið. Af hverju þurfti fólk að vera í sambúð eða gift?

En frumvarpið er allt af hinu góða og það er einskær von mín að það fái hraða meðferð innan þingsins. Að því standa aðilar úr öllum flokkum. Vonandi verður það ekki að einhverjum samningsspón eins og mörg frumvörp verða.

Mig langaði að ræða líka annan hluta af því að fara í tæknifrjóvgun sem hv. þm. Hildur Sverrisdóttir nefndi hér áðan, en það er hinn mikli kostnaður sem fólk situr uppi með sem þarf á slíku að halda. Fyrir nokkrum dögum var viðtal við unga konu sem fór í gegnum tæknifrjóvgun og eignaðist barn. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa örstutt upp úr viðtalinu við hana þar sem hún segir:

„Ég er ein og var svo sem ekki búin að safna sérstaklega fyrir þessu en átti smá sparifé. Í hvert skipti sem tæknisæðingin heppnaðist ekki fann ég fyrir meiri vonbrigðum og meiri fjárhagsáhyggjum. Það er leiðinlega hliðin á þessu öllu saman. Ef þú ert mjög heppin og þetta tekst í fyrsta skipti þá þarf þetta ekki að kosta voða mikið en maður veit það ekki fyrir fram.“

Já, það eru því miður mörg dæmi um það að fólk þarf að ganga í gegnum margar tilraunir áður en þetta tekst og við þurfum virkilega að finna leiðir til að styðja við fólk með því að lækka þennan kostnað. Það geta ekki allir borgað fyrir þetta í dag sem vilja komast í tæknifrjóvgun.

Mig langar enn og aftur að þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir þetta mikilvæga frumvarp og fyrir að fá að vera með á því.