Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:51]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir sína framsögu hér áðan og einnig óska henni til hamingju með að þetta mál sé komið inn í þingið. Ég vildi koma hingað upp örstutt til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Mér þykir þetta mjög mikilvægt mál enda er sú ákvörðun að eignast barn ein stærsta ákvörðun sem einstaklingur getur tekið. Því miður er það svo að oft er líkaminn ekki sammála okkur þannig að það getur verið erfitt að geta barn en sem betur fer lifum við á þeim tímum að tæknin getur aðstoðað okkur. Tæknifrjóvgun aftur á móti er gríðarlegt inngrip í líkamann. Það eru blóðprufur, blóðrannsóknir, hormónasprautur, kynfrumugjöf og annað og auk þess getur verið mjög mikill kostnaður við þetta. Þegar fólk hefur tekið þá ákvörðun að láta líkama sinn fara í gegnum þetta svakalega inngrip og tekið þá ákvörðun að eignast barn með þessum hætti þá er náttúrlega ótrúlegt að þröngsýn lagaumgjörð geti komið í veg fyrir það. Ef fólk tekur þá ákvörðun að fara í gegnum þetta ferli, jafnvel með einhverjum sem það er ekki í sambúð með eða ekki í hjónabandi með, taka þessa ákvörðun saman og fara í gegnum þetta ferli, þá þykir mér sjálfsagt að það sé hægt. Þetta er bara þeirra ákvörðun. Þess vegna styð ég þetta frumvarp heils hugar.

Svo eru líka aðrir hlutir í tengslum við tæknifrjóvgun sem við þyrftum kannski að fara að skoða. Oft er það þannig að það verða mjög langir biðlistar fyrir kynfrumugjöf og það er ekkert langt síðan, ég veit ekki hver staðan er á þessu í dag, fyrir stuttu var tveggja ára biðlisti til að fá egg. Leghafar hafa fengið greitt fyrir að gefa egg og það er umhverfi sem við þyrftum kannski líka að skoða og styðja betur við og auglýsa betur og fara í gegnum allt þetta ferli í kringum tæknifrjóvgun á allan hátt. Það eru margar konur sem fara út til að gefa egg og einnig til að fara í gegnum tæknifrjóvgun vegna þess hvað biðlistarnir á Íslandi eru langir. Allt sem styður við að bæta þetta ferli styð ég heils hugar.