Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

tæknifrjóvgun o.fl.

8. mál
[13:54]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mig langaði bara örstutt að fá að koma hingað upp því hún tæpti á mjög mikilvægu atriði sem ég hafði svo sem ekki nefnt í þessari umræðu. En eins og þingmenn sem tók til máls á undan mér, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, nefndu eru fjölmargir þættir í kringum þetta allt sem þarfnast rýni og skoðunar. Ég ákvað mjög meðvitað að hafa þetta frumvarp bara um þessi atriði, þessi tæknilegu sanngirnisatriði sem ég veit ekki betur en að allir ættu nokkurn veginn að geta verið sammála um þannig að við getum bara drifið það frá og náð í smáréttlæti gagnvart því fólki í þessu landi sem er að glíma við að lögin eru að aftra því frá þessum tækifærum.

Eftir allan þennan inngang langar mig bara að nefna þetta með eggjagjöfina og langa biðlista, það er auðvitað mikið vandamál. Ég held að partur af því vandamáli eða þeirri stöðu sé kannski ekki alveg nógu mikið í umræðunni. Það er ákveðið stigma í kringum þetta og slíkt. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að skoða. En mig langaði bara að nefna það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. að greitt væri fyrir eggjagjöf. Það er vissulega gert. Það er kallað „óþægindakostnaður“, sem er, að mig minnir, 150.000 kr., en ég er ekki alveg viss. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að ég veit að Danmörk hefur ákveðið að stíga skrefið og borga talsvert meira til að reyna að minnka þessa biðlista. Sú aðgerð er ekki hafin yfir gagnrýni. Það er alveg vert að ræða hvort sú forsenda að fá greitt sé endilega besta forsendan í þessari stöðu. En mér finnst alveg hiklaust, og tek undir það með hv. þingmanni, að við þurfum að ræða þetta.