Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

vextir og verðtrygging o.fl.

12. mál
[16:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til að þakka fyrir þetta mál. Þó að ég sé ekki meðflutningsmaður þá styð ég það að sjálfsögðu. Það er stundum reynt að lesa of mikið í stuðning fyrir fram við þingmál með því að skoða hverjir eru meðflutningsmenn og hverjir ekki, hvort það séu einhverjir flokkar til eða frá og svoleiðis. Það virkar ekki alveg þannig hérna. Ég myndi til að mynda vilja henda verðtryggingunni út um gluggann helst á morgun eða í dag í staðinn fyrir að taka þetta milliskref og frysta. Það er alveg fínt milliskref og ég styð það heilshugar. Ástæðan fyrir því er í raun rosalega einföld. Mig langaði að fara aðeins yfir ástæðurnar fyrir því að verðtryggingin er algerlega djöfullegt verkfæri hinnar lötu efnahagsstjórnar, ef ég má orða það þannig. Ekkert kurt og pí með það, bara einfaldlega eins vel orðað og hægt er að hafa það.

Vísitalan sem slík, með eða án húsnæðis og ýmislegt svoleiðis, er ekki vondi karlinn í neinu, vísitala er einfaldlega bara mæling á því hvernig verðlag er að breytast. Það er bara gott að vita það. En það að taka þetta mælitæki og setja það sem sjálfvirka uppfærslu á eitthvað eins og lán, sem vísitalan er líka að mæla, breytir mælitækinu. Ég er hér með metersstiku sem má nota til að mæla hversu mikið af húsnæði er í landinu, hversu dýrt það er o.s.frv. Frábært. Svo dettur einhverjum í hug að binda leiguna sína við þessa mælistiku þannig að hún haldist. Einhver hækkar leiguna hjá sér einhvers staðar í kerfinu sem gerir það að verkum að mælistikan lengist af því að vísitalan sem verið er að mæla hækkaði. Allt í einu er húsnæði í landinu orðið verðmætara. Það hefur áhrif á þann sem batt leiguna við þessa mælistiku og hækkar leiguna þar, sem aftur breytir mælistikunni — ekki til baka, alltaf bara í eina átt. Þarna er verið að misnota þá mælistiku sem vísitalan er, sem á að vera upplýsingatæki fyrir okkur, og það verður til ákveðinn vítahringur. Mælistikan á að mæla ákveðin verðmæti og breytingar á þeim verðmætum. Verðmætunum er breytt sem kemur fram í vísitölunni; fínt, nákvæmlega eins og það á að vera. En út af því að verðmætunum var breytt, sem voru tengd við mælistikuna, þá breytast verðmætin aftur í kjölfarið, út af breytingunni á mælistikunni, út af breytingunni sem var gerð upprunalega og veldur breytingu númer tvö, sem aftur veldur breytingu á mælistikunni og veldur þá breytingu númer þrjú o.s.frv. Þetta verður vítahringur endalausrar verðbólgu.

Þetta er hagstjórnartæki, við skulum hafa það algerlega á hreinu. Efnahagurinn sem slíkur, hagkerfið, er í raun ekkert annað en það sem er þarna úti og er með verðmiða; bara andvirði alls sem hægt er að kaupa. Það er hagkerfið eins og það er. Hagvöxtur er bara mæling á muninum milli þess sem var keypt í fyrra og í ár. Ef meira er keypt í ár en í fyrra var hagvöxtur. Þá eru fleiri hlutir komnir með verðmiða. En það gætu líka hafa verið jafn margir hlutir með hærri verðmiða. Hundrað manns kaupa 100 mjólkurfernur í hverri viku eða eitthvað svoleiðis sem kostar 100 kr. hver. Það er efnahagurinn, þessi lokaði efnahagur þessara 100 mjólkurferna. Næstu viku eru allar mjólkurfernu á 110 kr. en það eru áfram hundrað manns sem kaupa þessar 100 mjólkurfernur, en efnahagurinn stækkaði þá um 10%. Það er hagvöxtur upp á 10% þrátt fyrir að nákvæmlega jafnmargar mjólkurfernur hafi verið keyptar fyrir nákvæmlega jafn margt fólk; og meira að segja þó að fólki fjölgi, bara ef verið er að kaupa jafn margar mjólkurfernur fyrir hærra verð. Allt í einu verður hagvöxtur þrátt fyrir að engu hafi verið bætt við, verð var bara uppfært, því var bara breytt. Einhvers staðar þarf fólk að hafa efni á þessum auka 10% og þar koma inn launakröfur o.s.frv. til að ná þeirri hringrás, hluta af verðmætasköpuninni, í veski fólks aftur.

Hingað til hefur það alla vega virkað að launaþróun almennt séð hefur að jafnaði verið hærri en verðbólguþróun. Það er veðmálið sem við erum að taka þegar við erum með verðtryggingu. Við byrjum á að taka verðtryggt lán og þá erum við að veðja á, til þess að hafa í við aukningu á afborgunum, hækkunina, að launin okkar hækki það mikið. Hingað til hefur það veðmál að mestu leyti gengið eftir. Það hafa vissulega komið tímabil, sérstaklega í hruninu, þar sem verðbólgan var miklu meiri en launahækkanirnar og á sama tíma lækkaði verðgildi íbúðanna sem voru þar á bak við. Þegar við byrjum með eign sem við skuldum 80% í, verðtryggt lán og svoleiðis, sem hækkar að vísu, þá hefur andvirði eignarinnar alla jafna líka hækkað þannig að skuldahlutfallið hefur ekkert endilega breyst neitt rosalega mikið. Þótt við séum komin 10–20 ár í að greiða af láninu, sem hefur sífellt hækkað o.s.frv., hefur andvirði eignarinnar líka hækkað þannig að við erum kannski ekki endilega komin umfram 80% skuldahlutfall á íbúðinni sem við erum að reyna að kaupa með þessu ömurlega láni. Veðmálið helst þar enn þá. Það er ekki fyrr en á seinni hlutanum sem við loksins getum farið að greiða niður og ná lægra skuldahlutfalli og allt upp á það að byrja á lægri afborgunum en á óverðtryggðu láni, sem er rosalega merkilegt. Allt þetta veðmál lendir á lántaka, þar er öll áhættan.

Helsti vandinn við þetta er að áhættan er hvergi annars staðar. Út af því hefur hagstjórnin á Íslandi einfaldlega leyft sér að vera dálítið frjálsleg því að allar bólur og allar slæmar efnahagslegar ákvarðanir hafa í raun bara dottið í verðtrygginguna, á öllum sviðum efnahagsins. Fólk með verðtryggð lán borgar fyrir slæmar efnahagslegar ákvarðanir. Þess vegna þurfum við að losna við verðtrygginguna til þess að stjórnvöld hafi ekki þessa flóttaleið frá því að sinna almennilega ábyrgri efnahagsstjórn. Hingað til hafa stjórnvöld bara getað lokað augunum og reikningurinn lendir á heimilunum, sjálfkrafa. Í því ábyrgðarleysi standa rökin um mælistikuna. Það má einfaldlega ekki nýta þessa mælistiku, sem á að vera upplýsingatæki fyrir okkur um vísitölu, sem vítahringjatæki. Við eigum ekki að geta notað mælitæki til þess að hafa áhrif á það sem þau síðan mæla sjálf. Það býr til vítahringi. Bara út af því að vísitalan er mælieining má ekki nota hana, þannig á það að vera, til að breyta því sem hún er að mæla. Það skemmir mælitækið. Hitt er síðan að þetta er letihagstjórnartæki, sem er kapítuli út af fyrir sig, sem við verðum að losna við til að ná einhvers konar stöðugleika hér á Íslandi. Alltaf þegar stjórnvöld eru að tala um að aðalmarkmiðið sé stöðugleiki þýðir það ekki neitt á meðan við erum í verðbólguhagkerfi með verðtryggingu, þar sem verðtryggingin er einhvern veginn skálkaskjól stjórnvalda sem þykjast vera með einhverja stöðugleikapólitík. Það bara gengur ekki upp. Út af þessu tvennu þurfum við nauðsynlega að losna við verðtrygginguna.

Annað sem tengist þessu er að á undanförnum árum hefur verið átak í gangi, fólk hefur verið að fara af verðtryggðu lánunum. Það var ákveðin þróun yfir í það að fólk færi í óverðtryggð lán. Nú virðist eins og fólk sé að leita aftur í verðtryggðu lánin, einfaldlega af því að það voru önnur hagstjórnarmistök sem ollu því að íbúðaverð fór í hæstu hæðir. Þá fara upphæðir afborgana að skipta máli og þar eru verðtryggðu lánin þau sem eru með lægstu afborganirnar og fólk nær ekki inn á nein önnur lán en þau. Það eru einu lánin þar sem þú getur tekið nægilega hátt lán og haldið afborgunum niðri til að standast greiðslumat. Það var farið í lán með breytilegum vöxtum, það er ekkert annað en annað nafn yfir verðtryggt lán, ekki neitt. Það er ekki nákvæmlega sama beintenging við vísitölu neysluverðs eða byggingarvísitölu eða hvað sem er, en það er samt ekkert annað. Ef verðbólgan fer á fleygiferð þá breyta lánastofnanirnar einfaldlega vöxtunum eftir miklu ógagnsærri aðferðum en með verðtryggingunni. Það er vissulega meiri nákvæmni í því, það er ekki bara nákvæmlega eftir vísitölu neysluverðs heldur er hægt að breyta minna o.s.frv., en ákvörðun um það er ekki eins gagnsæ og er í raun ekkert annað en verðtryggt lán. Það að lánastofnanir geti eftir mjög óljósum rökum, eins og Neytendasamtökin hafa komist að, breytt skilmálum lána á þann hátt að vextir hækka eða lækka er einfaldlega sama fyrirkomulag að grunni til og að tengja við verðbólgu, vísitölu neysluverðs. Vissulega eru stýrivextirnir þarna inni en ef þetta væri t.d. óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum byggðum á stýrivöxtum en ekki einhverju öðru eins og lánaskilmálar fela í sér væri það kannski skárra. En af því að skilmálarnir eru svo opnir er hægt að breyta vöxtum lánsins eftir því sem hentar lánastofnuninni. Það besta til að tryggja lánastofnunina fyrir tapi er einmitt að bendla lánið beint við vísitölu neysluverðs og byggingarvísitölu. En það hefur kannski ekki verið fullnýtt heldur er hægt að fela það í verðtryggingu; létt útgáfa ef þannig má orða það. Það lánafyrirkomulag er líka eitthvað sem þarf tvímælalaust að henda út um gluggann. Það er í raun jafn ógagnsætt fyrir lántaka og verðtryggt lán þegar þú sérð í raun bara fyrstu afborgunina, eftir það hefur þú ekki hugmynd um hvernig lánið kemur til með að þróast og vextir eru byggðir á geðþóttaákvörðunum lánastofnunarinnar. Það er að mínu mati óboðlegt út frá neytendasjónarmiðum.