Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

vextir og verðtrygging o.fl.

12. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit varla hvar ég á að byrja, en ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir stuðninginn. Það var ofboðslega margt sem hann kom inn á. Ég var kannski ekki 100% sammála þessu sem hann endaði á að tala um, þ.e. að lán á breytilegum vöxtum væru í rauninni það sama og verðtryggð lán vegna þess að þau virka allt öðruvísi. Það verða ekki þessi snjóboltaáhrif því að þú ert ekki að fá lánað fyrir verðbólgunni. En hitt er svo að það þarf að herða þessa skilmála og Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á það í mörg ár og lagt fram alls konar kvartanir gagnvart þessum skilmálum í mörg ár. Það er eitthvað sem verið er að vinna í og þarf virkilega að þrengja. En ég er algerlega sammála því að þessi verðtryggðu lán eru bara djöfullegt tæki, það er ekki hægt að kalla það annað. Ég hefði líka algerlega viljað sleppa þessu millistigi, að biðja um frystingu í eitt ár, enda er ég með frumvarp sem verður vonandi lagt fram á næstu vikum um afnám verðtryggingar á lánum til neytenda. Hins vegar á verðtrygging alltaf að vera á milli fjárfesta og fjárfesta og ríkis vegna þess að öðruvísi hafa þessir aðilar ekki hag af því að halda verðbólgunni niðri. Í raun hefur þessu verið snúið við hér á Íslandi. En það er alveg rétt líka sem hv. þingmaður sagði. Mælitækið, vísitalan, það er ekkert við það að athuga. Ef við værum ekki eina þjóðin í heiminum sem miðaði lán við vísitölu neysluverðs hefði ekkert okkar áhyggjur af því hvort húsnæðisliðurinn væri inni í vísitölunni eða ekki. Þá myndi það ekki skipta okkur neinu einasta máli. En þegar lánin okkar hækka og lækka með einhverju sem á bara að vera mælitæki, þá skiptir það öllu máli.