Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

vextir og verðtrygging o.fl.

12. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum bara að taka aðra umræðu um það hvort þetta sé verðtryggt eða ekki, við getum alveg gert það. En það sem hv. þingmaður er að segja undirstrikar að það eru engin góð lán til fyrir neytendur á Íslandi. Það kemur alltaf í bakið á þér einhvern veginn. Það er þetta gríðarlega óöryggi sem neytendur á Íslandi búa við, sem er allt annað en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, alla vega í löndum sem við viljum miða okkur við. Það er eitthvað sem þarf að breyta.

Í mínum huga er frumvarpið sem ég hef lagt fram núna neyðarráðstöfun. Það sem ég lagði upp með í fyrra, þegar ég samdi frumvarpið, var hvað ég gæti hugsanlega fengið samþykkt sem bjargar málum núna. Ég veit að afnám verðtryggingar er mál sem er miklu stærra og erfiðara að fá í gegn. Það kemur til með að taka miklu lengri tíma. Þess vegna er ég að fara þessa leið til að bjarga því sem bjargað verður. En svo þarf bara að minna á þetta, stöðuna eins og hún er í dag. Samkvæmt reiknivél Landsbankans er óverðtryggða lánið með 7% vöxtum og þeir fara ekkert oft mikið hærra en það. Samt er heildargreiðslan á lánstímanum á 25 ára láni, ég varð að miða við það af því að óverðtryggða lánið er til 25 ára, „ekki nema“ 84 millj. kr., en 215 af verðtryggða láninu. Svo komum við að því, sem gerist ekki með óverðtryggðu lánin, sem eru þessi snjóboltaáhrif á afborganir. Sá sem var með verðtryggða lánið ætti að borga 65,6 millj. kr. á síðustu fimm árum lánstímans. Hver myndi fara inn í banka og taka lán til fimm ára upp á 65,6 milljónir? Ekki neinn. Þetta nær ekki nokkurri einustu átt.