Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

greiðslureikningar.

166. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um greiðslureikninga. Frumvarpið var áður flutt á 152. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt að mestu óbreytt. Með frumvarpinu er kveðið á um ný heildarlög um greiðslureikninga sem innleiða tilskipun Evrópusambandsins 2014/92 um samanburð gjalda vegna greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að greiðslureikningum með grunneiginleikum. Að auki kveður frumvarpið á um breytingar á lögum um greiðsluþjónustu.

Helstu efnisatriðum má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi verður greiðsluþjónustuveitendum gert skylt að láta neytendur fá gjaldskrá. Þar skal koma fram hvernig helstu hugtök eru skilgreind yfir algengustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningi og tilsvarandi gjalds fyrir hverja þjónustu sem greiðsluþjónustuveitandi býður. Jafnframt skulu greiðsluþjónustuveitendur, a.m.k. einu sinni á ári og án endurgjalds, láta neytanda í té yfirlit yfir öll gjöld sem stofnað hefur verið til á tímabilinu vegna greiðslureiknings, svokallað gjaldayfirlit. Til að gera neytendum kleift að meta á einum stað kostnað við mismunandi greiðslureikninga hér á landi verður komið á samanburðarvefsetri fyrir greiðslureikninga og verður fyrirkomulag þess nánar útfært í reglugerð ráðherra.

Í öðru lagi verður greiðsluþjónustuveitendum gert að veita svokallaða skiptiþjónustu. Í henni felst að neytandi á rétt á aðstoð greiðsluþjónustuveitanda við að skipta um greiðslureikning. Vilji neytandi opna greiðslureikning í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ber greiðsluþjónustuveitanda hans hér á landi einnig að aðstoða neytanda þá fyrst og fremst með því að veita neytanda upplýsingar um gildandi reglulegar millifærslur fjármuna og beingreiðslur síðastliðna 13 mánuði, millifæra innistæðu og loka greiðslureikningi neytanda óski hann þess. Sú þjónusta er því ekki eins umfangsmikil og skiptiþjónustan. Gjaldtaka vegna skiptiþjónustu skal vera sanngjörn og í samræmi við raunverulegan kostnað greiðsluþjónustuveitanda.

Í þriðja lagi skulu lánastofnanir veita aðgengi að almennum greiðslureikningi og er þeim óheimilt að mismuna neytendum að því leyti. Í frumvarpinu er fjallað um eiginleika slíkra reikninga og kveðið á um að lánastofnanir skuli bjóða þá þjónustu án endurgjalds eða á sanngjörnu verði. Frumvarpið kveður jafnframt á um breytingar á tveimur ákvæðum í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021, sem fela í sér að skerpt er á orðalagi ákvæðanna. Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands er falið eftirlit með framkvæmd laga um greiðslureikninga. Gert er ráð fyrir að ný verkefni vegna áformaðrar lagasetningar rúmist innan núgildandi rekstraráætlunar fyrir Fjármálaeftirlitið, svo fremi sem rekstri samanburðarvefseturs verði ekki komið fyrir þar. Eins og áður segir er ráðherra falið að setja reglugerð um samanburðarvefsetur og á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort einhver kostnaður fellur á ríkissjóð vegna þess. Að öðru leyti er ekki fyrirséð að önnur fjárhagsáhrif verði fyrir ríkissjóð. Lagt er til að lögin taki gildi frá og með næstu áramótum og að Seðlabanki Íslands setji nánari reglur til útfærslu á lögunum sem innleiða afleiddar gerðir ESB sem byggja á greiðslureikningatilskipuninni.

Virðulegi forseti. Með lögfestingu frumvarpsins á að vera tryggt að allir sem dvelja löglega á Íslandi hafi aðgang að almennum greiðslureikningi. Þá verður neytendum auðveldað að skipta um greiðslureikning og aðgengi almennings að upplýsingum um gjaldtöku vegna greiðslureikninga bætt, m.a. með gjaldskrá, gjaldayfirliti og samanburðarvefsetri um gjöld sem tengjast greiðslureikningum. Ný lög um greiðslureikninga munu fela í sér auknar kröfur til hérlendra lánastofnana um að tryggja aðgengi að greiðslureikningum, gagnsæi gjalda fyrir neytendur og að koma á skiptiþjónustu fyrir neytendur. Ekki er talið að fjöldi fyrirtækja á markaði takmarkist eða frumkvæði fyrirtækja til að stunda samkeppni skerðist vegna laganna.

Að lokum tel ég rétt að minnast á það að greiðslureikningatilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 11. júní 2021 og mun hún taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu á næstu mánuðum.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.