Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

greiðslureikningar.

166. mál
[18:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru athyglisverð dæmi sem hv. þingmaður rekur hérna og rifjar það upp þegar farsímabyltingin varð t.d. í Kína þar sem víða hafði ekki enn verið komið á talsambandi við umheiminn með lagningu símastrengja. Menn gátu bara sleppt því skrefi, farið beint í farsímana og þannig skotið öðrum svæðum ref fyrir rass sem voru enn í uppbyggingu á fastlínum. Þetta er bara gott dæmi hjá hv. þingmanni um að stórstígar framfarir verða stundum þar sem tæknin er kannski skemmst á veg komin og annars staðar þar sem menn hafa verið í fararbroddi dragast þeir skjótt aftur úr ef þeir fylgjast ekki með. Hér erum við að reyna að tryggja að við séum í fremstu röð með lagaumhverfi til að nýta okkur þessa nýjustu tækni. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að við hefðum átt að klára þetta mál fyrr á þessu ári en vonandi lukkast það núna.