Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:25]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. „Spurt hef ég tíu milljón manns séu myrtir í gamni utanlands“, með leyfi forseta. Svo orti Nóbelsskáldið í Sjálfstæðu fólki. En ólíkt því sem Bjartur í Sumarhúsum ritaði í bréfi sínu til Ástu Sóllilju þá látum við Íslendingar okkur það varða sem gerist á erlendri grund enda eru áhrif ófriðarins hér á landi ólíkt meiri en á tímum Bjarts í Sumarhúsum. En þó svo að hér á landi séu helstu áhrifin af stríðinu í Úkraínu efnahagsleg megum við Íslendingar ekki gleyma því að stríð nútímans eru ekki einungis háð á vígvellinum. Stríð nútímans eru margþætt. Netárásir geta lamað samfélög á einu augnabliki. Yfirtaka tölvukerfa getur sett stofnanir og fyrirtæki í þá aðstöðu að geta ekki sinnt sínum hlutverkum eða veitt sína þjónustu. Og upplýsingar sem við viljum halda leyndum geta verið komnar á forsíðu fréttamiðla samdægurs. Móðir náttúra minnir okkur líka á það öðru hverju að innviðir okkar eru varnarlausir og hvað við erum orðin háð nútímatækni eins og rafmagni og símum. Já, stríð nútímans felast einnig í því að sá fræjum upplýsingaóreiðu, skapa vantraust á fólk og stofnanir og leiða til sundrungar. Stríð nútímans felst í að fjármagna þá aðila sem ala á flutningi falsfrétta. Við Íslendingar erum miklir eftirbátar þegar kemur að netöryggi og fjölþáttaógnum og nauðsynlegt er að við mótun nýrrar þjóðaröryggisstefnu séu mikilvæg skref tekin í að byggja upp varnir á þessum nýju vígvöllum.