Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[12:44]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það komi vel til skoðunar í nefndinni. Ég hef bara mikla trú á því þegar ráðherra kemur og mælir fyrir frumvarpi hér í fyrstu umferð að auðvitað sé nefndarstarfið gríðarlega gagnlegt. Þær athugasemdir og meðferð þingnefnda er iðulega til að bæta frumvörp. Þannig að ég bara fagna því að sjá í raun og veru þær athugasemdir sem fram munu koma varðandi það.

Einnig langar mig að bæta við — af því að ég var aðeins að rifja upp aðdraganda fjármálahrunsins og hvað við getum lært af því og er þakklát fyrir að geta verið hér til að fylgja eftir ákveðnum atriðum sem ég tel að séu til þess fallin að bæta eftirlit og styrkja umgjörð atvinnulífsins. Eitt af því sem var mjög áhugavert þegar við vorum að vinna úr fjármálahruninu, eitt af því sem við tókum eftir og var mjög bagalegt var að það voru ýmis fyrirtæki sem höfðu bara ekki sinnt því að skila ársreikningum, jafnvel fyrirtæki sem voru mjög stór. Sum þeirra voru það stór að þau höfðu í raun og veru áhrif á greiðslujafnaðargreiningu Seðlabanka Íslands. Þess vegna er rosalega mikilvægt að öll umgjörð í kringum þessa þætti, hvort sem það eru raunverulegir eigendur eða að skila ársreikningum, að þetta sé eins gott hjá okkur og best verður á kosið.