Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[12:46]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég tjáði þingmanninum í fyrra andsvari mínu þá er ég mjög opin gagnvart því. Ég þarf aðeins að skoða og fara yfir hvort eitthvað sé sem mælir gegn því. Í anda þess gagnsæis sem ég hef trú á til að styrkja íslenskan fjármálamarkað held ég að það sé gagnlegt og gagnlegt líka fyrir almenna fjárfesta.

Eitt af því sem ég tel að við munum sjá í auknum mæli, og ræddi það nú fyrir svona 18 mánuðum, er að almenningur mun í meira mæli fjárfesta á skipulögðum fjármálamarkaði, m.a. vegna þess að lífaldur þjóðarinnar er að hækka og fólk er að skoða betur hvernig það getur ráðstafað sparnaði sínum. Sparnaður jókst verulega, ég veit ekki alveg hvar hann stendur akkúrat núna en það varð mikil aukning á tímabili. Ég tel að við eigum að auka svigrúm og frelsi til fjárfestinga inn til framtíðar. Því meiri upplýsingar sem almenningur eða almennir fjárfestar hafa á skipulögðum fjármálamarkaði, því betra.

Þannig að ég er mjög hlynnt þeirri aðferðafræði hv. þingmanns að auka gagnsæi. Það tryggir líka, eins og fram hefur komið, aukið traust á skipulögðum fjármálamarkaði.