Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[12:50]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hugmyndina um hvort möguleiki sé á að bæta við því að hægt sé að skila inn rafrænt. Ég held að þetta sé eitthvað sem nefndin eigi að skoða af því að við erum bara farin að skila svo mörgu núna rafrænt. Ég þarf bara að skoða það betur áður en ég svara því akkúrat hér og nú.

Eins finnst mér áhugavert hvort hægt sé að búa til eitthvert gagnasnið sem auðveldar raunverulega skoðun. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að pdf-formið, það er ekkert þægilegt að vinna sig í gegnum það.

Eins og ég sagði áðan tel ég mjög brýnt að nefndin komi með tillögur sem eru til þess fallnar að styrkja þetta. Jafnvel þó að þingmönnum sumum, sem eru kannski ekki hér í salnum, finnist málið kannski vera svolítið þurrt og ekki pólitískt áhugavert þá er þetta mál mjög áhugavert vegna þess að það snýr að þessari umgjörð í tengslum við skipulagða fjármálamarkaði og ekki bara skipulagða fjármálamarkaði heldur í tengslum við atvinnulífið.

Enn og aftur ítreka ég mikilvægi þess að við gerum þetta þannig að auðvelt sé að fara yfir það sem um er að ræða, bæði að auðvelda aðgengið og líka að stíga enn frekari skref til að við getum afgreitt þetta með rafrænni undirskrift.