Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[12:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæð svör við andsvörum. Mig langaði bara að taka upp það sem hæstv. ráðherra nefndi varðandi það hve mikilvægt það var í tengslum við hrunið að geta fengið góða innsýn í hvernig staðan raunverulega var hjá fyrirtækjum. Eitt af því sem við þurfum að geta gert er einmitt að vinna með öll þessi gögn og geta borið þau saman. Eru hlutirnir að verða betri eða erfiðari? Erum við komin á barm annars hruns? Ef við hefðum aðgang að þessum gögnum á gagntækan hátt, ég held að það sé orðið, held ég að við gætum svo sannarlega nýtt þau, ekki bara til að auka upplýsingar til þeirra sem eru að fjárfesta heldur líka til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, sem ég veit að hæstv. ráðherra leggur mikla áherslu á, sem er gott.