Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mér finnst það blasa við að það verður að hækka þakið ef við tökum bara mið af launaþróun í landinu, hækkun meðallauna og hvar kynin eru stödd í tekjutíundunum, svo að maður orði það þannig. Það er alveg ljóst að ef við hækkum þakið þá munu fleiri karlar sjá sér fært að taka fæðingarorlof því að þeir verða ekki fyrir eins miklu tekjutapi og þeir verða fyrir núna. Ég ætla reyndar að minna á að í gegnum árin og áratugina hafa konur orðið fyrir ómældu tekjutapi. En látum það nú liggja milli hluta.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta verður að gerast til þess að við náum að uppfylla markmið laganna með sem bestu móti. Sveigjanleikinn er líka mikilvægur. Hann er líka mikilvægur upp að ákveðnu marki, t.d. hvað það varðar að geta dreift tökunni á lengri tíma en 12 mánuði. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sveigjanleikinn í skiptingunni, eins og hann er í lögunum, sé alveg nægur, að við séum ekki komin þangað að við getum leyft okkur að láta þetta bara fara eins og það fer af því að hið efnahagslega umhverfi og reynslan segir okkur hvar fæðingarorlofið lendir þegar það gerist.