Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:16]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að svara þessum spurningum sem best ég get. Ég hygg að ef foreldraorlofi, sem samið hefur verið um og er í lögum á Íslandi, væri beitt með þeim hætti að foreldrar gætu tekið það á launum fram að því að barn verður sjö ára — þetta eru einhverjar vikur, ég bara man ekki sem stendur hvað þær eru margar, fjórar, fimm, sex eða eitthvað slíkt — gæti það aukið mjög sveigjanleika fyrir heimili og foreldra með ung börn. Það er eitthvað sem við í Samfylkingunni viljum skoða mjög alvarlega og erum í raun að gera svo að það sé upplýst hér.

Ég er þeirrar skoðunar að það sem eigi að koma á móti frá hinu opinbera fyrir ungbarnafjölskyldur séu ríflegar, helst ótekjutengdar, barnabætur og þannig brúi fólk bilið þegar fæðingarorlofið er búið og börn eru farin í leikskólann. Þá þarf fólk að brúa ýmis bil í heimilishaldinu, vegna starfsdaga eða hins og þessa. Eins og við vitum verða lítil börn lasin og fólk þarf að eiga dag í það líka og stundum er það búið með dagana sem það á rétt á. Þannig koma velferðarríki til móts við foreldra ungra barna. Það er það sem mér finnst svo mikilvægt að við teiknum inn í þessa mynd.

Um lenginguna vil ég segja að ég held að við séum á leiðinni í lengingu. Við erum hins vegar nýbúin að lengja í 12 mánuði og við þurfum að láta reyna betur á það áður en við lengjum meira. Við þurfum að gera okkur fulla grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefur á vinnumarkaðinn að lengja meira. Snúin staða einstæðra foreldra — ég þekki það ágætlega sjálf. Við komum til móts við einstæða foreldra líka með ríflegum stuðningi hins opinbera, þannig gerum við það. Hvort aðrir taki fæðingarorlof á móti einstæðu foreldri, ekki í núverandi kerfi, nei.