Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:21]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér liggur hundurinn grafinn. Löggjöfin á Íslandi er með þetta tvíþætta markmið. Það var með fullri meðvitund löggjafans að það var gert vegna þess að það var ákveðið að búa til Fæðingarorlofssjóð og það var ákveðið að tengja réttindi við réttindi á vinnumarkaði eins og alltaf hefur verið. Þetta tvíþætta markmið er þannig að hvort tveggja er jafngilt, hagsmunir barnsins og staðan á vinnumarkaði. Við getum svo tekið umræðu um það hvort við viljum breyta þessari löggjöf og setja henni önnur markmið eins og er svo sem víða í kringum okkur af því að það er ekki eins alls staðar. Ég held hins vegar að það hafi verið gæfa okkar að gera þetta með þessum hætti vegna þess að það hafði svo mikil grundvallaráhrif til bóta fyrir börn, fyrir feður og auðvitað líka fyrir mæður og fyrir stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þar náðum við árangri sem við sáum hreinlega ekki fyrir þótt við vissum að lagasetningin væri framúrstefnuleg og ekki með sama hætti og við höfum séð í nágrannalöndum okkar. Það er rétt, sem hv. þm. Bergþór Ólason bendir á, við eigum eftir að sjá hvernig þrenging sameiginlega réttarins kemur niður og hvað það þýðir fyrir foreldra. Mig grunar að svarið þar sé hækkun þaksins, það sé ósköp einfaldlega þannig að hækka verði þakið svo að við getum fjölgað feðrum sem taka orlofið.

En ég tel ekki tímabært að við förum og endurskoðum markmið þessara laga. Ég held að við séum enn að vinna með þau með þeim hætti að við þurfum að hafa þetta tvíþætt markmið.