Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:23]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, er tekið fram að tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar sé að rúm 20 ár séu liðin frá því að eldri lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi og því sé rétt að laga fæðingarorlofskerfið að þeirri miklu þróun sem hefur orðið í samfélaginu, þar á meðal í jafnréttismálum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Endurspeglar rökstuðningurinn fyrir breytingunni fyrir tveimur árum ekki dálítið þá stöðu að það sé kominn tími til að leggja sjálfstætt mat á það hvort þessi tvíþætta nálgun sé enn réttlætanleg? Ég þykist vita sjónarmið hv. þingmanns í þeim efnum en það breytir því ekki að sem betur fer hefur orðið gríðarleg breyting. Ég held að flestir feður sem raunverulega geta, fjárhagslega eða annarra hluta vegna, tekið fæðingarorlof geri það. Ég held að það sé staðan sem við erum í í dag. Ég er ekki viss um að það sé hag barnsins fyrir bestu að við reynum hálfpartinn að lögþvinga annaðhvort foreldrið í frí sem það hefur ekki svigrúm eða tækifæri til að taka. Þar held ég að við séum á vondum stað hvað forræðishyggju varðar í þessum efnum. Ég tel mig vita skoðun hv. þingmanns á spurningunni sem ég ætla að leggja fram en mig langar samt að kasta því fram hvort það séu, að mati þingmannsins, forsendur til að taka til skoðunar með sjálfstæðum hætti þetta tvíþætta markmið löggjafarinnar, sérstaklega í ljósi rökstuðningsins fyrir því að lögin voru uppfærð fyrir tveimur árum.