Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

búvörulög.

120. mál
[14:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það fer ekki á milli mála hjá okkur sem höfum verið að hlusta á þessa umræðu að það er margt við starfsskilyrði bænda í dag sem má bæta. Það eru ekki allir á sama máli um það hvað sé besta leiðin en eins og kom fram í andsvörum mínum við framsögumann málsins þá finnst mér margt í þessu benda okkur á að við erum að festa okkur í því að reyna að setja enn einn plásturinn á áratugagamalt módel um það hvernig bændum séu tryggð lífsskilyrði til að geta haldið áfram.

Það var einn hv. þingmaður, ég man ekki alveg hver, sem nefndi það hér áðan að bændur væru hreint og beint að gefast upp, væru að selja allar sínar rollur og öll sín lömb því að ekki væri lengur hægt að vera sauðfjárbóndi á Íslandi. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál ef ástandið er orðið það slæmt að fólk er að gefast upp. Sjálfur ólst ég upp við það að vera í sveit öll sumur frá því að ég byrjaði í grunnskóla og fram að 13 ára aldri og maður hugsar svo sannarlega alltaf t.d. á vorin til þess tíma þegar sauðburðurinn er. Og að hugsa til þess að kannski eftir einhverja áratugi, vegna þess að við höfum verið svo föst í þessu módeli sem er löngu orðið úrelt, þá verði ekki nein tækifæri fyrir barnabörnin og barnabarnabörnin að sjá sauðburðinn.

Við erum með áratugagamalt módel sem er flókið, módel sem er ekki mjög sveigjanlegt, módel sem gekk eflaust mjög vel þegar það var búið til á sínum tíma, en við erum bara með allt aðrar aðstæður núna en við vorum og höfum verið undanfarna áratugi. Sem dæmi erum við að fara að eiga við meiri og meiri loftslagsvá. Loftslagsváin mun hafa þau áhrif að við þurfum að hugsa meira um hvernig við framleiðum mat og matvæli. Við þurfum að hugsa meira um votlendi og annað. Allt eru þetta hlutir sem snerta bændur. Við getum ekki haldið að við ætlum að takast á við þessar gjörbreyttu aðstæður með einhverju módeli sem var búið til þegar við bjuggum næstum því öll enn þá í torfkofum. Það er orðið svo langt síðan, það var alla vega áður en ég fæddist, ég kalla það torfkofana.

Við búum nefnilega ekki bara við breyttar umhverfisaðstæður, við erum líka með breyttar markaðsaðstæður. Það datt engum í hug að flytja mat eins og lambakjöt til Íslands fyrir 40 árum síðan. Það hefði bara verið hlegið að því, fyrir utan það að kjötið hefði sennilega verið ónýtt við komuna hingað frá Nýja-Sjálandi.Við lifum við breyttar markaðsaðstæður, við lifum við breyttar umhverfisaðstæður og við lifum bara við það að við þurfum að hugsa þetta allt upp á nýtt. Við þurfum að hætta að setja endalaust plástra á gamalt kerfi sem er löngu úr sér gengið. Við þurfum að vinna þetta saman, hvað við ætlum að gera, hvernig við ætlum að hugsa þetta upp á nýtt, og ekki vera föst í viðjum fortíðarinnar og segja: Já, en þetta þarf að vera þannig að lambið fari frá bónda til afurðastöðvar, til heildsala, til búðarinnar og til einstaklingsins, neytandans. Það er ekkert endilega þannig í dag.

Við þurfum virkilega að vinna saman að þessu. Þó að það séu örfáir bændur hér innan veggja Alþingis og þó að örfá okkar hafi verið í sveit þá þarf að vinna þetta með bændunum, þeim sem eru bændur í dag. Það þarf að að vinna með þeim, vinna með neytendum, það þarf að vinna með öllum aðilunum að því að koma með nýtt módel, nýtt módel fyrir nýja öld.

Við heyrðum framsögumann málsins t.d. tala um það hvernig slátrað er á átta vikum í dag og svo standi bara sláturhúsin auð þar á milli. Á sama tíma getum við t.d. ekki farið inn á Ameríkumarkað, eins og t.d. í Whole Foods-búðirnar, vegna þess að við getum bara skaffað ferskt kjöt í einhverjar átta eða tólf vikur á ári. Þeir vildu selja þetta allt árið um kring en við gátum ekki annað þeirri eftirspurn.

Þegar við förum í það að byggja upp þessar nýju leiðir þá þurfum við að sjálfsögðu að hafa hag framleiðendanna og hag neytendanna og, eins og hefur líka komið fram, hag samfélagsins þegar kemur að fæðuöryggi að leiðarljósi. Við verðum að hætta að vera með þessa íhaldssemi, og það er óháð því í hvaða flokkum við erum. Við verðum að hætta þessari íhaldssemi, að vera alltaf föst í sama hugsunarhættinum, að það verði að leysa allt innan sama módels. Við þurfum virkilega að endurhugsa þetta allt. Við þurfum að keyra áfram nýsköpun á þessu sviði. Og þegar ég segi keyra áfram nýsköpun þá er ég ekki að tala um að setja einhverjar 50 millj. kr. á ári í Matvælasjóð, það er ekki upp í nös á ketti, hvað þá sauðfé. Við þurfum að rækta nýsköpun. Við þurfum að þora að fara nýjar leiðir, prófa nýjar leiðir utan við þetta módel sem við erum með og sýna það þor að gefa upp á nýtt, eins og ég orðaði það fyrr í dag, og þora að prófa nýjar leiðir og þora að standa með bændum og þora að standa með neytendum þegar kemur að þessu. Við getum gert það ef við hættum að vera föst í þessari íhaldssemi okkar, að hafa þetta allt eins og það var.