Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til hamingju með að vera kominn hér í stólinn. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að leiðrétta töluna um það hversu margir hefðu skrifað undir heitið. Mér heyrist að ég hafi aðeins verið að ýkja hvað ég hélt að við værum mörg.

En varðandi það af hverju öðrum var ekki boðið að vera með á málinu þá er í raun bara því til að svara að þetta er mál sem við í Vinstri grænum höfum flutt hingað til en ef svo leiðinlega vill til að ég þurfi að flytja málið aftur þá mun ég svo sannarlega taka þessa ábendingu hv. þingmanns til greina því að auðvitað snýst þetta um að ná fjöldasamstöðu um málið. Ég vil þess vegna þakka fyrir þessa ábendingu og vona að hv. þingmaður verði með mér í liði í því að ná þessum þingmönnum í brautryðjendaliðið fyrir því að banna kjarnorkuvopn. Svo er það auðvitað þannig að langstærsta verkefnið er að ná þeim sem ekki hafa skrifað undir þetta heit, og sem ég ætla að leyfa mér að trúa að séu engu að síður ekki hlynntir kjarnorkuvopnum, á okkar mál því að það er ekki nóg að predika yfir hinum sanntrúuðu. Við verðum að ná til þeirra sem einhverra hluta vegna hafa ekki tekið afstöðu eða ekki rökstutt það af hverju þeir vilja frekar fara einhverja aðra leið.