Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[15:12]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er dapurlegt að Ísland hafi ekki tekið þátt á fyrri stigum og hafi ekki einu sinni mætt á fundi varðandi þennan samning um að banna kjarnorkuvopn. Ég er hrædd um að veran í NATO spili þar ákveðið lykilhlutverk vegna þess að NATO er jú hernaðarbandalag sem áskilur sér réttinn til að nota kjarnorkuvopn að fyrra bragði. Forsvarsmenn ICAN hafa engu að síður bent á það og fært fyrir því býsna góð rök að lönd sem eru þó aðilar að NATO en hafa ekki yfir kjarnorkuvopnum að búa, ég tala nú ekki um land eins og Ísland sem hefur ekki einu sinni yfir her að búa, geti alveg orðið aðilar að samningnum þrátt fyrir veruna í NATO. Þannig að mig grunar að það strandi á þessu.

En svo held ég líka, líkt og ég kom að í ræðu minni áðan, að umræðan um öryggismál fari því miður oft inn á aðrar brautir en þær að hugsa um hið gríðarlega óöryggi sem felst í því að 10–12 þjóðir eiga kjarnorkuvopn til að nota, því að það þarf ekki nema eina sprengju til að voðinn sé vís. Og þetta hefur Rauði krossinn t.d. sýnt með myndböndum, hvaða áhrif það hefði á borg ef kjarnorkuvopnum væri beitt þar.