Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[15:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Það er til skammar að friðelskandi land eins og Ísland hafi ekki undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Í raun hefði Ísland átt að vera leiðandi í þessu starfi í stað þess að vera eftirbátur.

Þegar ég ólst upp var kjarnorkuógnin mikil og nú þegar hún hefur náð hæstu hæðum á ný langar mig að rifja upp ljóð eftir James nokkurn Thurber sem Borgfirðingurinn Magnús Ásgeirsson þýddi á mjög fallegan máta, ljóð sem foreldrar mínir lásu svo oft fyrir mig í æsku, ljóð um kjarnorkuvána, á ljóð sem mig langar, með leyfi forseta, að flytja örlítil erindi úr.

Undir XII. alheimsfrið

(eins og fólk mun kannast við)

eftir blóðug öfgaspor

endursteyptist menning vor.

Heimsbyggð öll var eydd að grunni.

Uppi stóð ei tré né runni.

Bældir heimsins blómsturgarðar.

Brotnir heimsins minnisvarðar.

Lægra en dýr með loðinn bjór

lagðist mannkind smá og stór.

Ég ætla ekki að fara með allt ljóðið því það er dálítið langt, en í því kemur fallegur endir um ungu stúlkuna sem finnur eitt blóm, síðasta blómið og piltinn sem hún sýnir það. Saman endurreisa þau mannkynið, þangað til það aftur steypist á heljarþröm og ekkert lifir af nema einn piltur, ein stúlka og eitt blóm.

Við megum ekki gleyma því hversu alvarleg þessi ógn er og við getum ekki látið einhverja pólitík stöðva það að þessari ógn sé eytt, að hún sé bönnuð.