Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[15:18]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Maður kemst við að heyra svo fallegt kvæði flutt hér um svo mikilvægt mál og ég þakka hv. þingmanni fyrir að deila því með okkur. Ég er einn af þeim sem standa að þessari tillögu um undirritun og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum. Ég held að við höfum jafnvel meira en nokkru sinni fyrr verið minnt á það að undanförnu hversu hræðileg ógn getur fylgt kjarnorkuvopnum. Kjarnorkuvopn eru eitt það hræðilegasta sem mannkynið hefur nokkru sinni fundið upp eða búið til og þeim fylgir ekkert annað en óöryggi, mögulegt blóðbað og ringulreið.

Það eru ýmsir sem hafa aldeilis tekið þessi mál upp og fylgt eftir og ég vil sérstaklega tiltaka António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hefur verið óþreytandi baráttumaður fyrir kjarnorkuafvopnun og eyðingu kjarnorkuvopna og heldur færst í aukana að undanförnu, einmitt núna þegar á þarf að halda í þeirri umræðu og því ákalli til þjóða heimsins. Svo að ég vísi aðeins í hann þá hefur hann talað um að kjarnorkuafvopnun, sem sagt að við losum okkur við þau, sé ekki útópískur draumur. Hann hefur hvatt þjóðir heims til að minnka þá áhættu sem þar er á ferðinni og sameinast um að eyða kjarnorkuógninni í eitt skipti fyrir öll. Svo ég vitni aftur í aðalritarann sagði hann fyrir nokkrum dögum í einni brýningunni, í lauslegri þýðingu minni, með leyfi forseta:

„Þeir tímar þar sem þjóðum er stillt upp með hótunum um notkun kjarnorkuvopna verða að taka enda. Sú tálsýn að eitthvert ríki geti átt í og unnið kjarnorkustríð er veruleikafirring. Notkun kjarnorkuvopna myndi leysa úr læðingi einhvern hræðilegasta mannlega harmleik sem hægt er að hugsa sér og þar þurfum við að stíga til baka.“

Þetta voru orð aðalritarans fyrir nokkrum dögum.

Aftur að Íslandi og stöðu þess. Ísland, sem vopnlaus fullvalda þjóð sem litið er til víða um heiminn sem fyrirmyndarþjóð sem stendur fyrir gildi sem fleiri vilja sameinast um, ætti að sýna gott fordæmi ásamt þeim fjölda þjóða sem þegar hafa staðfest samninginn. Ég vil ítreka það, eins og aðalritarinn hefur sagt, að þetta er ekki tálsýn. Okkur hefur tekist að vinna smásigra en stundum eru stigin skref aftur á bak, til að mynda í banni við framleiðslu og notkun á jarðsprengjum sem eru auðvitað allt önnur vopn en samt hræðileg á annan hátt og við vitum hvaða afleiðingar notkun þess getur haft. Meira að segja Bandaríkin, mesta herveldi heims, tilkynntu það á síðasta ári að þeir bönnuðu notkun og framleiðslu jarðsprengna. Þeir undanskildu reyndar landamærin milli Kóreuríkjanna. En þarna bannar þetta herveldi jarðsprengjur. Hvers vegna? Jú, vegna þess hræðilega skaða sem þær valda, ekki síst eftir að stríði lýkur, bara fyrir almenning og fólkið sem byggir þessi lönd, þessi svæði, og hverju það getur búist við að lenda í árum og jafnvel áratugum saman eftir að stríði lýkur. Þannig að við sjáum svona skref stigin öðru hvoru, jafnvel þó að þjóðir sem telja sig vera friðelskandi og jafnvel til fyrirmyndar á heimsvísu græði nú enn á því að framleiða þessi vopn og því miður erum við að horfa upp á hræðilega notkun á þeim núna í stríðinu í tengslum við innrásina í Úkraínu. Einmitt þar eiga eftir að vera í ár og áratugi bara hræðileg slys á fólki vegna þeirra þegar þessum átökum öllum mun vonandi ljúka. Auðvitað eru kjarnorkusprengjur miklu meiri og hræðilegri vopn en þetta er samt dæmi um að við getum náð árangri með samtakamætti og stundum eru stigin tvö skref áfram og eitt til baka í því efni.

Hér held ég að sé tækifæri til að klára málið. Mér finnst miður að Alþingi Íslendinga hafi ekki klárað þetta mál á síðustu þingum. Við höfum tækifæri til þess nú og aldrei hefur verið ríkari ástæða til þess en núna, eins og aðrir hafa nefnt á undan mér, núna er aldeilis tíminn til þess. Ég vil aftur vitna í okkar ágæta aðalritara sameinuðu þjóðanna, António Guterres, sem sagði að útrýming kjarnorkuvopna væri ein besta gjöf sem gætum gefið komandi kynslóðum. Ég vil taka undir þessi orð. Ein besta gjöf sem við getum gefið komandi kynslóðum er að við náum þeim árangri að útrýma kjarnavopnum. Ég vænti þess að þessu máli verði fylgt vel eftir. Það var mjög ánægjulegt að heyra það hér áðan í máli þingmanna að það er töluverður stuðningur við slíkt í hópi alþingismanna. Ég vona að sá stuðningur verði til þess að þessu máli verði fylgt betur eftir og að við munum taka ákvörðun um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ég held að ég láti það vera lokaorðin hér.