Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

meðferð einkamála o.fl.

278. mál
[17:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi og vil spyrja hann út í 12. gr. frumvarpsins er varðar framlengingu gæsluvarðhalds, en ákvæðið hljóðar þannig að ef óskað er eftir framlengingu gæsluvarðhalds og slík krafa er tekin fyrir af dómara áður en það rennur út fellur gæsluvarðhald ekki niður á meðan á slíkum fresti stendur.

Frú forseti. Þetta þýðir að lögreglan getur á síðustu stundu, síðustu mínútu gæsluvarðhalds, skutlað inn beiðni um framlengingu og sá sem er þarna frelsissviptur þarf bara að þola að dómarinn taki allan þann tíma sem honum hentar, og framlengist gæsluvarðhaldið þá sem því nemur án nokkurs úrskurðar. Þetta á sú sem hér stendur bágt með að trúa að sé í alvöru verið að leggja til, af því að ég sé ekki að það samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að hægt sé að frelsissvipta fólk án nokkurs úrskurðar. Þegar búið er að ákveða að gæsluvarðhald standi í ákveðið langan tíma þá má ekki samkvæmt lögum og stjórnarskrá halda viðkomandi lengur. Hvaða heimild er verið að byggja á? Ég hefði haldið að það væri alveg skýrt að lögreglan verður bara að nýta þann tíma sem hún hefur, mæta innan tímafrests og óska framlengingar ef þess er þörf.