Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Vísinda- og nýsköpunarráð.

188. mál
[17:01]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð sem felur í sér heildarendurskoðun laga um vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Eins og gefur að skilja hafa miklar breytingar orðið á málaflokki vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar frá því að þau lög voru samþykkt en yfirstjórn málaflokksins og hlutverk ráðsins hafa staðið óbreytt. Á þessu tímabili hafa ítrekað komið fram ábendingar í erlendum og innlendum úttektum á íslenska vísinda- og nýsköpunarkerfinu um að endurskoðun sé nauðsynleg og breytinga þörf og voru raunar slíkar ábendingar þegar komnar fram þegar ég gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra á árunum 2009–2013. Það var því svo að ég ákvað að skipa verkefnahóp til að rýna lagaumhverfið hér á Íslandi og bera saman við þau lönd sem við berum okkur saman við. Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar og fyrrverandi formaður vísindanefndar til margra ára, veitti þessum hópi forstöðu. Verkefnið var sem sagt þetta, ekki bara að fara yfir stöðu vísinda- og nýsköpunarmála hérlendis heldur einnig reynslu annarra þjóða af margvíslegu fyrirkomulagi á yfirstjórn málaflokksins og reynslu af Vísinda- og tækniráði í alþjóðlegum samanburði. Þessari samantekt var skilað í ágúst 2020 og setti hópurinn þar fram tillögu um framtíðarfyrirkomulag yfirstjórnar vísinda-, tækni- og nýsköpunarmála. Þar kemur fram, þ.e. í þeirri samantekt, sem er aðgengileg á veraldarvefnum, að mörg samanburðarlönd hafa gert viðamiklar breytingar á stjórn vísinda- og nýsköpunarmála á síðustu árum til að bregðast við örum samfélagsbreytingum og vaxandi alþjóðlegri samkeppni. Rannsóknir sýna að samhengi er á milli öflugs vísinda-, háskóla- og nýsköpunarstarfs og samkeppnishæfni þjóðar og hafa því margar þjóðir sett þennan málaflokk í öndvegi.

Eins og glöggir hv. þingmenn muna var þetta frumvarp áður lagt fram á 151. löggjafarþingi og gekk þá til allsherjar- og menntamálanefndar en var ekki útrætt. Ég mæli nú fyrir frumvarpinu í breyttri mynd, m.a. vegna fram kominna umsagna við það í þinglegri meðferð og samráðs forsætisráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands í byrjun ársins 2022. Sú skipan felur auðvitað í sér að lykilmálefni Vísinda- og tækniráðs eiga heima í sama ráðuneyti sem hefur það hlutverk að vera leiðandi í stefnumótun og stjórnsýslu á málefnasviðinu.

Frú forseti. Markmið frumvarpsins er að efla vísindastarf, tækniþróun og nýsköpun hér á landi svo styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks efnahags og atvinnulífs með því að efla stefnumótun og auka samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Veigamesta breytingin á núverandi fyrirkomulagi sem lögð er til er aðskilnaður ráðgefandi og stefnumótandi hlutverks ráðsins. Þannig verði annars vegar starfandi ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun sem samræmi stefnu stjórnvalda og hins vegar sjálfstætt, faglegt Vísinda- og nýsköpunarráð sem verði ráðgefandi fyrir stjórnvöld. Þá er lagt til að innan þess ráðuneytis sem fer með málefni vísinda starfi sérfræðingar á sviði greiningar, mats og úttekta sem styðji starfsemi ráðherranefndar og styrki grunnstefnumótun.

Þessi niðurstaða byggist á vandlegri skoðun verkefnahópsins sem ég nefndi hér í upphafi sem skoðaði þetta málefnasvið í samanburðarlöndunum og öðrum OECD-ríkjum. Í tillögu verkefnishópsins er vísað til skýrslu OECD um fyrirkomulag yfirstjórnar vísinda-, tækni- og nýsköpunarmála í 35 aðildarríkjum stofnunarinnar frá árinu 2018. Þar kemur margt áhugavert fram. Í fyrsta lagi að yfirgnæfandi meiri hluti landanna eða 31 af 35 hefur á að skipa einhvers konar vísinda-, tækni- eða nýsköpunarráði. Í öðru lagi eru nær öll ráðin ráðgefandi eða um 90% þeirra og 74% þeirra taka þátt í að þróa stefnumiðaða forgangsröðun. Um helmingur ráðanna stýrir svo mati á stefnunni og sama hlutfall hefur það hlutverk að samhæfa stefnu á sviðinu hjá ráðuneytum í ríkisstjórn og við hagaðila sem ekki eru hluti af hinu opinbera. Algengast er að í ráðum af þessu tagi sitji ráðherrar og fulltrúar háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs. Í 12 löndum af 31 er forsætisráðherra eða þjóðarleiðtogi þátttakandi í stefnumótun á málefnasviðum vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, t.d. í Finnlandi, Svíþjóð, Slóveníu, Frakklandi, Ástralíu, Þýskalandi og Portúgal.

Samkvæmt gildandi lögum á Vísinda- og tækniráð að vera stefnumótandi en hefur í raun fremur gegnt ráðgefandi hlutverki. Stefnumótandi hlutverk ráðsins hefur ekki samræmst vel íslenskri stjórnskipun og hefðum þar sem ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins hver á sínu málefnasviði, eins og ég nefndi hér áðan í tengslum við neyðarbirgðir, og það er sú stjórnskipan sem við búum við. Ráðherrar eru þannig ekki lagalega bundnir af stefnu ráðsins, jafnvel þó að þeir sitji í ráðinu og samþykki stefnuna og því hefur á köflum borið á því að þær væntingar sem stefnan hefur gefið hafi ekki verið uppfylltar. Það er undir ráðherrunum sjálfum komið að hve miklu leyti þeir nýta sér þennan vettvang og fagþekkingu starfsnefnda þegar þeir móta stefnu í sínum málaflokkum. Fjármögnun verkefna eða forgangsröðun er enn fremur á könnu hvers ráðuneytis fyrir sig. Framgangur stefnunnar byggist fyrst og fremst á því hvort þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á tilteknum verkum og fjármögnun þeirra sjái til þess að verkefnunum verði hrint í framkvæmd. Það er því afar mikilvægt að tryggja eignarhald ráðherranna á stefnunni við mótun hennar.

Óskýrt hlutverk ráðsins hefur gert það að verkum að stefnan hefur á köflum vakið væntingar, eins og ég nefndi hér áðan, sem ekki alltaf hefur verið hægt að standa undir. Staðan hefur jafnvel haft vantraust í för með sér, einkum þegar einstök stefnumarkmið, svo sem aukin fjármögnun sjóðanna, nær ekki fram að ganga. Auðvitað er það svo að við búum við það að þurfa að takast á við hagsveiflur. Sjálf var ég einmitt mennta- og menningarmálaráðherra á árunum 2009–2013 með stefnu frá Vísinda- og tækniráði sem snerist um stórfellda aukningu og uppbyggingu á samkeppnissjóðum, sem ég var vissulega sammála, en eigi að síður bjó ég við þá stöðu að skera fremur niður í því ráðuneyti allan minn tíma þar, einfaldlega vegna þeirra aðstæðna sem hér urðu eftir hrun, þannig að eðli máls samkvæmt getur þetta skapað árekstra. Auðvitað sýndu þessu allir skilning en þarna þurfti að vega og meta hverju átti að forgangsraða í stefnu ráðherrans. Var það stefnan sem samþykkt var af Vísinda- og tækniráði? Var það undirstöðustarfsemi háskólastofnana á sama sviði? Hvar átti að grípa niður þegar niðurskurður var fyrir dyrum? Þarna erum við alltaf með þessa eðlilegu togstreitu, getum við sagt, og eðlilega, þegar ráðherrar og fagaðilar frá ýmsum stofnunum sitja við sama borð, þá gera þeir sem ekki eru handhafar framkvæmdarvaldsins þar þá kröfu að ráðherrarnir fylgi þeirri stefnu sem er samþykkt jafnvel þó að ytri aðstæður kunni að gera þeim það erfitt.

Svo ég víki aftur að þessu frumvarpi vil ég nefna það að þegar lögin um Vísinda- og tækniráð voru sett þá var það mikilvægt markmið að efla tengsl stefnu um vísindi og nýsköpun við aðra stefnumótun ríkisstjórnarinnar, t.d. á sviði efnahags-, atvinnu- og menntamála. Í erlendum úttektum á ráðinu hefur verið bent á að pólitísk áhrif Vísinda- og tækniráðs á stefnu í efnahags- og atvinnumálum hafi verið fremur lítil þótt það hafi vissulega verið opinbert markmið laganna frá árinu 2003. Tillaga þessa frumvarps um tvískiptinguna, þ.e. tvískiptingu verksviðs Vísinda- og nýsköpunarráðs, tel ég vera ákveðið svar við þeim vanda sem hér hefur verið lýst, þ.e. ný lögbundin ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun með skýrt hlutverk um samræmingu stefnu stjórnvalda annars vegar og hins vegar Vísinda- og nýsköpunarráð sem sinni ráðgefandi hlutverki sem byggist á traustum greiningum. Lagt er sömuleiðis til að ráðherranefndin gefi reglulega út framtíðarsýn í málefnum vísinda, nýsköpunar og tækni til 10 ára. Fordæmi um slíkt eru sótt til sambærilegs ráðs í Finnlandi og svipaðrar stefnu fyrir háskóla og vísindi í Noregi. Líkt og verið hefur gefi nefndin einnig út stefnu og aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum til skemmri tíma og það höfum við vissulega gert og í minni tíð sem formaður Vísinda- og tækniráðs núna sem forsætisráðherra hef ég lagt á það áherslu að fá reglulega inn stöðu þeirra aðgerða sem samþykktar hafa verið og margar þeirra hafa gengið eftir. Þannig að ég tel að við höfum verið að ná ákveðnum árangri við að láta stefnuna koma til framkvæmda.

Hér er svo lagt til að forsætisráðherra skipi Vísinda- og nýsköpunarráð að höfðu samráði við ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar til fjögurra ára í senn. Þar sitji níu fulltrúar með afburðaþekkingu og -reynslu, jafnt af innlendum vettvangi sem erlendum. Ráðið yrði fámennara en nú er og skipað til lengri tíma og ekki yrði það lengur tengt tilnefningum hagsmunaaðila eða einstakra stofnana heldur yrði tilnefningarnefnd falið að tilnefna fulltrúa í ráðið, meira um það síðar.

Þá aðeins um kerfið í kring. Þá sjáum við fyrir okkur að ráðið yrði stutt af faglegu starfi sérfræðinga innan þess ráðuneytis sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar, verði sjálfstæðara í störfum en núverandi ráð og frjálsara til breiðari upplýsingamiðlunar til þings og þjóðar og þar af leiðandi vonandi styrkara í sínu ráðgefandi hlutverki.

Aðeins aftur að tilnefningarnefndinni, því að mikil áhersla er lögð á að ráðið verði vel skipað og eðli máls samkvæmt spyrja hv. þingmenn: Bíddu nú við, á nú forsætisráðherrann að skipa öll sem að þessu koma? Í núverandi kerfi er það þannig að forsætisráðherra skipar alla aðra fulltrúa en ráðherra í Vísinda- og tækniráð en gerir það samkvæmt tilnefningum annarra ráðherra og hagsmunaaðila. Vandinn við þetta fyrirkomulag er að það gerir forsætisráðherra á hverjum tíma, hver sem hún eða hann er, erfitt um vik að horfa á heildarsamsetningu ráðsins með tilliti til ólíkrar þekkingar og reynslu sem skapar ákveðna hættu á að stór hluti tilnefningaraðila leggi til aðila með svipaðan bakgrunn.

Ég hef setið í þremur Vísinda- og tækniráðum og þar sitja raunar alveg afbragðssterkir einstaklingar, en þetta fyrirkomulag við skipan getur hins vegar leitt til ákveðins ójafnvægis sem snýr að þekkingu og reynslu þegar litið er til samsetningarinnar. Hugsunin á bak við þetta er að efla heildarhugsun við skipun ráðsins þannig að það sé ekki svo að margir tilnefni heldur að tilnefningarnefnd leggi fram tillögu til forsætisráðherra um skipan og þar verði fimm aðilar í tilnefningarnefndinni, tveir samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu fyrirtækja í atvinnurekstri, einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks og einn án tilnefningar, og skal hann vera formaður. Þessi nefnd vinni í samráði við ráðuneyti, hagaðila, óski eftir hugmyndum, tillögum, ekki sem sagt tilnefningum heldur tillögum og hugmyndum, og á grundvelli samráðs geri hún tillögu að ráði með hliðsjón af samsetningu þannig að við sjáum fulltrúa með bæði fjölbreytta reynslu, þekkingu á vísindum, tækni og nýsköpun og opinberri stefnumótun bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Ég man á sínum tíma, og þetta vil ég nefna hér bara sem dæmi um að mínu viti ágætlega heppnað fyrirkomulag, þegar við ákváðum að stofna gæðaráð háskóla einmitt á sama tíma og ég var mennta- og menningarmálaráðherra. Ég held að það hafi verið gríðarlega mikilvægt skref fyrir háskólastarf á Íslandi að stofna þetta gæðaráð og það var gert þannig að við sóttum erlenda aðila til að vinna gæðamat á háskólastofnunum á Íslandi. Mörg voru ekki sannfærð um að þetta yrði til góðs en þarna reyndum við að fá aðila með mjög fjölbreyttan bakgrunn, frá ólíkum löndum, með færni til að setja sig inn í háskólaumhverfi á Íslandi. Þetta var í raun og veru gert án þess að breyta lögum en hefur breytt gríðarlega miklu fyrir háskóla sem hafa verið að fá gæðaúttektir á sínu starfi sem byggjast á því að þeir geti bætt sig, að þeir geti gripið til úrbóta og skapað þetta mikilvæga samtal við erlenda sérfræðinga um hvernig við getum gert betur í háskólastarfi og hvaða leiðir eru til úrbóta. Þetta er dálítið sama hugsunin nema í því tilviki ákvað ég bara sjálf hverjir skyldu sitja í þessu gæðaráði, leitaði að sjálfsögðu samráðs við fjölda fólks sem vissi betur en ég hverjir væru bestir í þessu. Þarna erum við að reyna að breikka þennan grundvöll á bak við Vísinda- og nýsköpunarráð þannig að þarna sitji svona fjölbreyttur hópur.

Svo vil ég nú segja að einu sinni reyndi ég að leggja þetta til líka hvað varðar stjórn Ríkisútvarpsins þar sem ég lagði það til að tilnefningarnefnd tilnefndi í stjórn Ríkisútvarpsins til að tryggja slíka breidd. Alþingi samþykkti það en því var snúið við og ákveðið að flokkarnir héldu áfram að tilnefna fólk í stjórn Ríkisútvarpsins, enda fannst fólki þetta orðið aðeins of róttækt hér í þingsal. Þarna byggði ég á norrænum fyrirmyndum og trúi því enn að þetta hafi verið góð hugmynd þó að þingið hafi snúið því við eftir kosningar og breytta skipan þingsins.

En, frú forseti, nú er ég komin út fyrir efnið og ætla að snúa mér aftur að Vísinda- og nýsköpunarráði. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að það fundi a.m.k. þrisvar á ári og haldi tvo fastafundi með ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun, annan að vori í tengslum við fjárlagagerð og hinn að hausti þar sem stöðuskýrsla verði kynnt. Hlutverk ráðsins er að veita ráðherranefnd ráðgjöf um samræmingu stefnu stjórnvalda á sviði vísinda og nýsköpunar og vekja athygli á mikilvægum málum. Ráðið skal veita nefndinni endurgjöf með því að fjalla um stefnu stjórnvalda og setja fram rökstuddar tillögur að umbótum með tilvísun í alþjóðlega þróun á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni. Ráðið skal stuðla að upplýstri og gagnrýnni umræðu um vísindi, tækni og nýsköpun, stöðu greinanna og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag með skýrslum á opnum fundum. Þá er gert ráð fyrir að Vísinda- og nýsköpunarráð skili árlega skýrslu til forsætisráðherra og þess ráðherra sem fer með málefni vísinda þar sem fjallað verði um stöðu málaflokksins hér á landi í alþjóðlegu tilliti, um stefnumótun stjórnvalda, framfylgd stefnu og helstu samfélagslegar áskoranir.

Ráðherra sem fer með málefni vísinda skal leggja skýrsluna fram á Alþingi þannig að hún verði grundvöllur víðtækrar umræðu, vonandi í fjölmiðlum og auki sýnileika málaflokksins því að staðreyndin er sú að þessi málaflokkur fær kannski ekki endilega mikið rými í opinberri umræðu á Íslandi, a.m.k. ekki hér á Alþingi. Við höfum hins vegar átt því láni að fagna að hér hefur verið mikil samstaða um fjárveitingar til þessa málaflokks, þ.e. þegar við höfum verið að auka þær. Það breytir því þó ekki að við þurfum stöðugt að vera að endurmeta þær ákvarðanir sem við höfum hingað til tekið og ég nefni bara sem dæmi að við höfum ákveðið að endurgreiða kostnað við rannsóknir og þróun hjá fyrirtækjum. Þetta hefur skipt miklu máli fyrir þessi fyrirtæki en það sem við höfum séð gerast er að þessi fjárveiting hefur aukist mjög mikið og mun meira en til að mynda fjárveitingar sem höfum lagt inn í samkeppnissjóðina. Þetta þarf Alþingi að ræða og velta því fyrir sér hvort hér sé eðlilegt jafnvægi á ferð eða hvort við viljum eitthvað aðeins stilla betur af fjárveitingar til málaflokksins, hvort undirstöðurnar eru nægilega sterkar á sama tíma og það má segja að fjárveitingar til afleiddra áhrifa hafi aukist. Ég ætla ekki að dæma um það. Ég veit að þetta er til sérstakrar skoðunar hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en þetta finnst mér eðlilegt að Alþingi ræði því þarna birtist auðvitað að stefna.

Ég vil líka segja að við þurfum alltaf, þegar við ræðum þessi mál, annars vegar að horfa á það — og þar á meginþunginn í vísinda- og nýsköpunarstarfi að vera, meginþunginn á að liggja í því að efla vísindi, þekkingu og rannsóknir, algerlega án pólitískra afskipta. Þekking þekkingarinnar vegna, við viljum styrkja rannsóknirnar sem eru einfaldlega bestar. Við viljum að þær séu metnar af fagmönnum og við vitum, þó að við sjáum það kannski ekki endilega fyrir, að það mun skila samfélaginu mestum ábata þó að við stjórnmálamennirnir áttum okkur ekki endilega á því.

En við erum með farveg og sá farvegur heitir markáætlun. Á síðasta kjörtímabili var ráðist í að skilgreina svokallaðar samfélagslegar áskoranir sem taka þurfti á innan vísindasamfélagsins. Hluti af því ferli var að efna til svokallaðs almenningssamráðs þar sem fólki gafst kostur á að segja hvað það teldi mikilvægast að stjórnvöld beindu kröftum sínum í þegar kæmi að fjárveitingum til vísinda og nýsköpunar. Þar komu loftslagsmálin fremst, síðan voru það heilbrigðisvísindi og heilbrigðistækni og að lokum tæknibreytingar, það sem við köllum gjarnan fjórðu iðnbyltinguna. Um þessar áskoranir snýst núna ný markáætlun. Við erum að eyrnamerkja ákveðna fjármuni í að styðja sérstaklega við rannsóknir á þessu sviði og ég sé fyrir mér að stjórnvöld muni, að fengnum ráðleggingum Vísinda- og nýsköpunarráðs, leggja línurnar fyrir markáætlanir framtíðar með þessum hætti.

Áfram verður meginþunginn, ef ég fæ einhverju ráðið um það, í samkeppnissjóðunum þar sem gæðin eru í raun og veru eini mælikvarðinn en þarna gefst tækifæri til að leggja aukna vigt á samfélagslegar áskoranir. Persónulega tel ég það vera umhugsunarefni aftur fyrir þingið sem fer með fjárveitingavaldið að við sjáum þá tilhneigingu endurtaka sig og endurtaka sig í þau 15 ár sem ég hef verið hér að einstök ráðuneyti og ráðherrar stofna nýja sjóði til að styðja við góð og gild verkefni á tilteknum sviðum en aldrei tekst einhvern veginn að veita þessa fjármuni með einfaldari hætti í gegnum eina markáætlun þar sem stjórnvöld segja: Við leggjum línurnar um einhver fjögur, fimm málefni og síðan eru fjármunir veittir til þeirra málefna með mjög faglegum hætti. Við erum einhvern veginn alltaf að sjá nýja og nýja sjóði spretta upp samhliða. Þetta finnst mér líka vera umhugsunarefni þar sem við fáum ítrekað ábendingar frá erlendum aðilum um að einfalda styrkjakerfið okkar, að vera ekki með fjóra sjóði sem allir styrkja sömu hlutina. Kannski endurtekur sagan sig í þessu en þetta finnst mér alla vega þess virði að ræða.

Hér er lagt til að nafn ráðsins verði Vísinda- og nýsköpunarráð fremur en Vísinda- og tækniráð. Er sú breyting lögð til í takt við breytta hugtakanotkun á undanförnum 20 árum þar sem hugtakið nýsköpun hefur víða komið í stað hugtaksins tækniþróun. Hugtakið nýsköpun er víðara en tækniþróun enda tekur það einnig til nýsköpunar sem ekki felur í sér þróun tækni; nýsköpun í þjónustu, nýsköpun á sviði lista, skapandi greina. Finnar gerðu sambærilega nafnbreytingu árið 2009 þannig að við erum aðeins að feta í þeirra fótspor nokkrum árum síðar. OECD hefur skilgreint nýsköpun sem innleiðingu nýrrar eða mjög endurbættrar vöru, þjónustu eða ferils, nýrrar aðferðar til markaðssetningar eða nýrrar skipulagsaðferðar í viðskiptaháttum, skipulagi á vinnustað eða ytri samskiptum.

Ég fer nú að koma að lokum, frú forseti. Við endurskoðun laganna var haft víðtækt samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila. Efni frumvarpsins hefur þrívegis verið birt í samráðsgáttinni. Fyrst voru niðurstöður verkefnahópsins birtar haustið 2020, drög að frumvarpinu voru birt í mars 2021 og í ágúst síðastliðnum á nýjan leik. Gert er ráð fyrir að útgjöld muni aukast um u.þ.b. 20 millj. kr. á ári þar sem gert er ráð fyrir viðbótarsérfræðingi í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti til að styðja betur við starf ráðherranefndar og Vísinda- og nýsköpunarráðs. Núverandi útgjöld eru um 18–22 millj. kr. á ári sem hafa fallið á þrjú ráðuneyti en nú er gert ráð fyrir 40 millj. kr. auk 3 millj. kr. stofnkostnaðar á fyrsta ári. Ekki er gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingu en ég vil nú minna á það að útgjöld til rannsókna og nýsköpunar hafa aukist stórum á undanförnum árum og þessar 20 viðbótarmilljónir eru dropi í hafið hjá þeim milljörðum sem runnið hafa í þetta. Ég lít svo á að hægt sé að forgangsraða útgjöldum með þessum hætti þannig að við tryggjum faglegri og betri stefnumótun og tel að skilningur ríki um það á milli þessara ráðuneyta, þ.e. forsætisráðuneytis og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins, frú forseti, og legg til að því verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr. að þeirri meðferð lokinni.