Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

almannatryggingar.

44. mál
[18:27]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að leggja fram þetta frumvarp sem er enn einn plásturinn á kerfi sem er kolvitlaust frá upphafi, en mikilvægur plástur samt sem áður. Það er dálítið merkilegt með mörg okkar kerfi að við höfum ekki enn uppgötvað að hlutirnir hafa breyst svolítið frá því að ég var fimm ára gamall og fór í fyrsta skipti til útlanda, og fór svo ekki aftur í einhver fimm ár þar á eftir. Heimurinn er aðeins opnari en hann var og við getum valið að búa nokkurn veginn hvar sem er í heiminum. Það er mjög skrýtið að þegar við gerum það töpum við alls konar réttindum. Ég er sjálfur með mál í vinnslu sem kemur hingað eftir einhverja daga. Málið snýst um að þeir sem fá meðlag og eru búsettir erlendis fá það ekki greitt í gegnum Tryggingastofnun. Hvers vegna? Jú, það var bara ákveðið að gera það ekki. Ástæðurnar, eins og hv. þingmaður benti á varðandi þessi 90 og 100%, eru ekkert alltaf á hreinu. Þetta er svona, af því bara. Mér var kennt sem krakka að það væri bannað að segja af því bara og ég held að við ættum að hafa þá reglu í tryggingakerfinu að það mætti ekki vera neitt af því bara heldur yrðu að vera góð og gild rök að baki.

Einnig er það þó líka þannig að fólk sem hefur verið búsett erlendis í einhvern tíma, rétt eins og ég sjálfur, hefur einhvers staðar unnið sér inn réttindi. Mér skilst ég fái 150 kr. sænskar á mánuði í ellilífeyri þegar ég verð eldri vegna þess að ég er borgaði í tryggingakerfið þar í eitt ár. Ég hins vegar borgaði líka í tryggingakerfið í Bandaríkjunum, „social security“, eins og það heitir með leyfi forseta, en þar var ég ekki í nógu mörg ár til að það borgi mér nokkuð út. Þetta þýðir að ég sit kannski uppi með að þegar ég ákveð að þiggja ellilaun verð ég ekki kominn með einhver 40 ár eins og miðað er við. Kannski verða 157 kr. sænskar dregnar frá mér. Við þurfum nefnilega að hugsa um að kerfið þarf að taka á breyttum heimi. Það sem ég fæ frá einu eða öðru landi, frá Íslandi o.s.frv., ætti ekki að vera skert af þeirri ástæðu að enginn samningur við það sé til. Við þurfum einmitt að fara að skoða hvar samningar, eða skortur á þeim, eru til staðar. Við höfðum kannski ekki miklar áhyggjur af því í gamla daga en núna er það þannig að fólk vinnur og býr úti um allan heim.

Ef ég, eftir að ég byrja að þiggja ellilaun, ákveð að ég vilji eyða tímanum í sólinni á Spáni frekar en kuldanum á Íslandi þarf ég að geta gert það án þess að tapa einhverjum réttindum og það er óendanlega mikið af svona vitleysu í kerfinu. Ein vitleysan sem ég nefni mjög oft er sú að ef ég flyt t.d. frá Íslandi til Spánar, undir EES, þá flyst sjúkratryggingin mín milli þessara tveggja landa. Ef mér dettur hins vegar í hug að flytja til Bandaríkjanna þá fer ég til Hagstofunnar og tilkynni það. Degi síðar uppgötva ég kannski að Ameríka er ekkert frábær og fer í annað sinn niður á Hagstofu og segist ætla að flytja lögheimili mitt aftur til Íslands. Þá er ég allt í einu ekki heilbrigðistryggður í sex mánuði af því ég bjó í einn dag erlendis fyrir utan EES. Þetta kerfi gengur náttúrulega alls ekki upp. Við höfum verið að vinna í þessu með öðrum flokkum og munum leggja fram frumvarp síðar í haust þar sem tekið er á mörgu því sem Íslendingar búsettir erlendis lenda í. Kerfið okkar er einfaldlega svo gamalt og úrelt að það heldur að allir Íslendingar búi á Íslandi og muni alltaf gera, muni einungis hafa tekjur á Íslandi og alls ekki flatmaga í sólinni á Tenerife nema kannski í viku áður en flogið er til baka. En svona er þetta og þess vegna er mikilvægt að við förum í gegnum þessi kerfi, bæði í almannatryggingakerfið og sjúkratryggingakerfið, og komum þeim til 21. aldar — þótt það sé ekki nema einungis til þess að við skiljum að 21. öldin er komin og hlutirnir eru ekki eins og þeir voru þegar ég var fimm ára gamall.